Fara í efni
Menning

Kotasæla: Hugljúft og heillandi afturhvarf

AF BÓKUM – 25

Starfsfólk Amtsbókasafnsins á Akureyri segir lesendum Akureyri.net alla þriðjudaga frá bók eða bókum. Uppátækið vekur vonandi athygli á bókakosti safnsins, þar sem af nógu er að taka, og glæðir áhuga sem flestra á bóklestri.

Í dag skrifar Aija Burdikova_ _ _

Kotasæla (Cottage core) var þema á sýningarborðinu hjá okkur á Amtsbókasafninu í marsmánuði - menningarkimi sem ég hafði aldrei heyrt um áður. Það sem kom strax í ljós eftir að ég fékk útskýringu á þemanu var að margar bækur sem ég hef lesið upp á síðkastið og líkað vel við, flokkast undir þetta þema.

Kotasælu má lýsa sem fyrirbæri sem rómantíserar afturhvarf til hefðbundinna búsetuhátta, leggur áherslu á sjálfbærni í dreifbýli með mikilli fortíðarþrá og löngun eftir einfaldleika. Kotasæla er fyrir fólk sem elskar að föndra, rækta sitt eigið, vera úti í náttúrunni og deila ábendingum um heimilisstíl, garðyrkju og allt sem er huggulegt. Klassískar bækur sem myndu flokkast undir þetta þema eru til dæmis Anna í Grænuhlíð, Leynigarðurinn og Hobbitinn.

Nýlegar bækur sem ég get sérstaklega mælt með eru Emily Wilde, þríleikur eftir Heather Fawcett:

  • Emily Wilde's Encyclopaedia of Faeries (2023)
  • Emily Wilde’s Map of the Otherlands (2024)
  • Emily Wilde's Compendium of Lost Tales (2025)

Bækurnar eru sögulegar fantasíur sem eru hugljúfar og heillandi. Fyrsta bókin var fjórða uppáhalds fantasía Goodreads lesenda árið 2023 og önnur bókin lenti í þriðja sæti árið 2024. Mér finnst bækurnar mjög fyndnar og stundum alveg stórfurðulegar. Breskur húmor, te og skonsur, töfrar, álfar sem baka brauð sem haldast alltaf heit – notalegir og undarlegir hlutir sem ég kann að meta. Andstæður einkenna bækurnar - háskólasamfélag og rannsóknir á móti töfraheimum og álfum. Vel skipulögð, ófélagslynd mennsk kona á móti kaótískum, sjarmerandi álfaprinsi. Þessar bækur gefa tækifæri til að flýja hraða hversdagsleikans og njóta rólegri lífsstíls.

Aðrar kotasælufantasíur sem ég mæli með eru Weyward, The Very Secret Society of Irregular Witches og The Spellshop.