Fara í efni
Menning

Jólastemningin alltaf sérstakt aðdráttarafl

Fróðleiksmoli frá Minjasafninu á Akureyri

19. desember – Miðbæjarstemningin

Nú fer verslunargleðin að ná hámarki sínu. Verslun og þjónusta er ástæða þess að kaupstaðurinn Akureyri varð til. Árið 1602 með einokunarversluninni varð Akureyri formlega að verslunarstað. Síðan þá hefur nánast allt breyst nema Vaðlaheiðin.

Lengi vel var á þessari litlu eyri bara ein verslun, aðeins verslað á sumrin og búðum lokað að hausti þegar kaupmenn sigldu brott. Þeim var óheimilt að búa á Íslandi og almennt var fólki óheimilt að setjast að við sjóinn. Það átti að halda sig í sveitinni. Smám saman féllu bæði verslunar- og búsetuhöft og í vaxandi bæ fjölgaði verslunum með tíð og tíma. Þá færðist miðbærinn í norður.

Algengt var að bændafólk kæmi í kaupstaðinn fyrir jólin, bæði þurfti að ná í aðföng fyrir hátíðarnar og greiða skuldina við kaupmanninn. Töluverður drykkjuskapur og slark fylgdi kauptíðinni og mátti þá heyra drykkjulæti, söng, pústra og hófatak og frís hesta og geltandi hunda. Nú er reyndar allt þetta nema söngurinn óheimill í miðbæ Akureyrar en jólastemningin er nú sem fyrr sérstakt aðdráttarafl.

Meðfylgjandi myndi eru úr safni Dags og Minjasafnsins á Akureyri.

Haraldur Þór Egilsson er safnstjóri Minjasafnsins á Akureyri. Fróðleiksmoli frá Minjasafninu birtist á Akureyri.net á hverjum degi til jóla.