Fara í efni
Menning

Jólakort framleidd á Akureyri

Eitt jólakortanna með mynd eftir Elísabetu Geirmundsdóttur. Myndir frá Minjasafninu á Akureyri.

Fróðleiksmoli frá Minjasafninu á Akureyri

20. desember – Jólakort

Eðvarð Sigurgeirsson (1907-1999) starfaði sem ljósmyndari frá 1926 og rak eigin ljósmyndastofu frá 1936 til 1999. Þar voru lengi vel framleiddar handlitaðar myndir í stórum stíl sem prýddu stofur um allt land. Á stríðsárunum seldi stofan einnig mikið af póstkortum, sérstaklega til norskra, breskra og bandarískra hermanna sem hér dvöldu. Eðvarð framleiddi um tíma sérstök jólakort með eigin ljósmyndum sem urðu geysi vinsæl.

Þau voru ekki síður vinsæl jólakortin sem gerð voru af Listakonunni í Fjörunni, Elísabetu Geirmundsdóttur (1915-1959). Elísabet var ótrúlega fjölhæf í listsköpun sinni. Hún gerði listaverk úr hverju því efni sem henni barst í hendur, sumum forgengilegum eins og snjó. Kunnust varð hún fyrir myndverk sín en hún var einnig ágætt skáld og lipur lagasmiður.

Jólakortin gerði Elísabet til ágóða fyrir starfsemi I.O.G.T. á Akureyri.

Haraldur Þór Egilsson er safnstjóri Minjasafnsins á Akureyri. Fróðleiksmoli frá Minjasafninu birtist á Akureyri.net á hverjum degi til jóla