Fara í efni
Menning

Íslendingur ársins var „hamingjusamur“

Jón Óðinn Waage, í græna jakkanum, þegar tilkynnt var um val á „Íslendingi ársins“! Birkir Blær er við hlið hans, dómararnir Anders Bagge og Kishti Tomita lengst til hægri og í gula kjólnum er Katia Mosally, einnig dómari. Skjáskot af TV4.

Léttleikinn var í fyrrirúmi í lok úrslitaþáttar sænsku Idol söngkeppninnar á sjónvarpsstöðinni TV4 á föstudagskvöldið. Birkir Blær Óðinsson söng til sigurs sem alkunna er, en eftir að honum var vel og innilega fagnað var tilkynnt um nokkrar viðurkenningar hinum og þessum til handa. Meðal annars var Íslendingur ársins valinn.

Þrír voru tilnefndir, Birkir Blær, kraftakallinn og leikarinn Hafþór Júlíus Björnsson – Fjallið – og Jón Óðinn Waage, faðir Birkis Blæs. Jón Óðinn var viðstaddur allar beinu útsendingar Idol í vetur; ók fjóra klukkutíma frá heimili sínu til Stokkhólms og síðan heim aftur. Sænsku sjónvarpsmennirnir sýndu honum jafnan mikinn áhuga og Jón Óðinn varð einmitt fyrir valinu.

Sigurvegarinn var kallaður fram og hlaut rjúkandi eldfjall að launum! Þá var hlegið dátt!

Dómararnir töluðu iðulega um eldfjall þegar þeir lýstu Birki Blæ í þáttunum ellegar þegar rætt var um Ísland. Orðið þótti reyndar svo ofnotað að þeir voru farnir að sneiða hjá því í síðustu þáttunum: „þetta var eins og þú veist hvað ég meina ... “ sögðu þeir frekar.

Íslendingar ársins var beðinn um að ganga að hljóðnema á sviðinu og lýsa líðan sinni í einu orði. Jón Óðinn beygði sig fram og mælti dimmum rómi: lycklig. Hann kvaðst sem sagt hamingjusamur – og skildi engan undra.