Fara í efni
Menning

Kraftmeiri tónleikar en ég hef haldið áður

Birkir Blær með gítarinn fyrr í dag; tilbúinn í slaginn á Græna hattinum í kvöld. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Birkir Blær heldur tónleika á Græna hattinum í kvöld, þá fyrstu í gamla heimabænum eftir að hann sigraði í Idol söngkeppninni í Svíþjóð fyrir ári síðan. Hljómsveit var sett saman fyrir tónleikana og Birkir segist hlakka mikið til.

„Þetta verða öðruvísi tónleikar en ég hef verið með, enda ekki bara einn á ferð með kassagítarinn eins og hingað til. Ég hef aldrei haldið heila tónleika með hljómsveit áður,“ sagði Birkir við Akureyri.net í dag. Hann söng að sjálfsögðu með hljómsveit í Idol í fyrra og kom fram með bræðrum sínum í The Beasts of Odin á sínum tíma en þetta eru tímamót á sólóferlinum. 

Frumflytur nýtt lag

Í kvöld hyggst Birkir syngja frumsamin lög sem komu út á plötunni hans árið 2020, öll þó í nýjum búningi, og hann flytur líka nokkur þeirra laga sem hann söng í Idol keppninni. Nokkur vel valin cover lög eru líka á dagskránni; ábreiður, lög sem þekkt eru með öðrum flytjendum og „svo ætla ég að frumflytja eitt nýtt lag sem er ekki komið út,“ segir Birkir.

„Tónleikarnir verða miklu kraftmeiri en ég hef verið með áður,“ segir hann. „Þar sem ég er með hljómsveit ákváðum við að gera nýjar útgáfur af öllum lögunum mínum; rólegu lögin eru því ekki endilega mjög róleg lengur! Sum eru nánast eins og ný lög.“

Birkir hefur setið við að semja tónlist síðan hann vann Idol keppnina, tónlist sem verður gefin út á næsta ári. Hann segir töluverða soul stemningu í því sem hann hefur verið að búa til undanfarið. „Gömul bandarísk tónlist hefur alltaf heillað mig og hún hefur haft mikil áhrif á það sem ég er að gera; ég er kominn út í soul, blús og djass. Mér finnst skemmtilegast að syngja þá tónlist og ákvað því að henda mér beint út í það!“

Æðislegt að spila aftur á Græna hattinum

Hann segir það langþráð tímamót að spila á Akureyri á ný. „Mér finnst æðislegt að fá að spila á Græna hattinum aftur. Það er besti staðurinn og allt of langt síðan ég hef spilað þar af því ég bý í Svíþjóð.“

Tónleikarnir í kvöld hefjast klukkan 21.00. Hljómsveit Birkis Blæs skipa: Emil Þorri Emilsson trommuleikari, Tómas Leó Halldórsson sem leikur á bassa og fósturfaðir hans, hljómborðsleikarinn Eyþór Ingi Jónsson. „Eyþór setti hljómsveitina saman, ég hef ekki nógu miklar tengingar lengur til að gera það því nánast allir mínir vinir eru fluttir í burtu,“ segir Birkir. 

Birkir kom heim til Akureyrar 4. desember. „Ég fékk svo auðvitað þessa blessuðu flensu eins og mjög margir aðrir en við höfum getað æft stíft undanfarið. Ég hef aldrei spilað með þessum strákum áður, nema Eyþóri auðvitað, en þeir eru geggjaðir! Ég hlakka mikið til í kvöld.“