Fara í efni
Menning

Félagsfælinn en ekki feiminn á sænsku!

Birkir Blær Óðinsson heima á Akureyri í jólafríi. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Birkir Blær Óðinsson kom, sá og sigraði með glæsibrag í sænsku Idol söngkeppninni á sjónvarpsstöðinni TV4 í síðasta mánuði, eins og lesendum Akureyri.net er vel kunnugt. Hann er afar spenntur fyrir framhaldinu; að semja tónlist og gefa út á vegum Universal útgáfurisans. Tónlistarmaðurinn ungi segist líklega flytja frá Gautaborg til Stokkhólms fljótlega.

Birkir Blær varði jólum og áramótum í faðmi fjölskyldunnar á Akureyri, þar sem hann ræddi við Akureyri.net.

„Það var frábær reynsla að taka þátt í Idolinu – algjör snilld. Ég lærði sjúklega mikið af þessu, ekki síst hvernig sjónvarp virkar, sem er gott að taka með sér inn í framtíðina,“ segir Birkir.

_ _

Dómararnir í Idol fóru ekki leynt með hrifningu sína á Birki og hrósuðu honum gríðarlega í hverjum þættinum á eftir öðrum.

Hér má sjá nokkur dæmi áður en lengra er haldið:

  • Þegar Birkir komst í gegnum áheyrnarprufur sagði einn dómaranna að frammistaða hans hefði verið sú besta í sögu keppninnar – og að hann væri tilbúinn í heimstónleikaferðir!
  • „Ég þarf að jafna mig, hér gerðist eitthvað stórfenglegt! Allt ótrúlega gott ... Veit ekki hvernig ég á að orða þetta …. það væri siðlaust af mér,“ sagði Kishti Tomita þegar Birkir flutti Kaleo lagið No good þann 1. október. Annar dómari, Alexander Kronlund, sagði: „Þú og gítarinn … Ég er orðlaus!“
  • „Birkir, ég er á þeirri skoðun að þú sért besti söngvarinn í keppninni í ár – að þú getir sungið svona þrátt fyrir að vera með hálsbólgu er stórkostlegt,“ sagði einn dómaranna 8. október eftir að Birkir flutti Húsavík (My Home Town) úr húsvísku Hollywood myndinni Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga.
  • „Þetta var stórbrotið með myndum af [íslenskri] náttúru á bak við þig; tónlistin sem þú hefur í þér og tæknin sem þú býrð yfir er stórkostleg,“ sagði annar.
  • „Birkir, þú ert sá eini í hópnum sem getur orðið alþjóðleg stjarna!“ sagði einn dómaranna eftir flutning Birkis á A Change Is Gonna Come – í 12 manna úrslitunum um miðjan október. 

_ _

Mikið var um dýrðir þegar úrslitakvöld Idol fór fram í Globen höllinni, Avicii Arena, í Stokkhólmi 10. desember. Birkir heillaði sænska sjónvarpsáhorfendur enn einu sinni upp úr skónum og hafði betur í síðustu kosningunni.

Sigrinum fylgir m.a. samningur við útgáfurisann Universal í Svíþjóð og ekki var eftir neinu að bíða. „Þeir hjá Universal settu upp mikið prógram fljótlega eftir sigurinn, ég fór til dæmis í mörg útvarps- og sjónvarpsviðtöl. Fékk smá frí yfir jólin en svo fer allt á fullt aftur í janúar; þá fer ég að semja lög en verð líka eitthvað á ferðinni á þeirra vegum. Það stendur til að ég ferðist um Svíþjóð og komi fram; það verður frítt inn svo allir geti komið, fólk getur hlustað á mig, spjallað og fengið myndir með mér. Ég vona að þessi blessaða veira komi ekki í veg fyrir að þetta verði hægt, því ég held að svona túr gæti orðið skemmtilegur.“

Draumastarfið

Birkir, sem er 22 ára, segist nú kominn í draumastarfið og vera gríðarlega spenntur.

„Já, heldur betur. Og það er gott að hafa svona fyrirtæki með sér; þeir hjá Universal hafa einmitt sagt að nú snúi ég mér að því að semja tónlist og þeir sjái um allt annað; að fá aðra lagasmiði til að hjálpa mér ef ég vil, plana tónleika og útvarpsviðtöl – allt sem þarf. Ég geti algjörlega einbeitt mér að tónlistinni. Það er algjör snilld og ég get ekki beðið eftir því að byrja.“

Birkir og kærastan hans, Rannveig Katrín Arnarsdóttir, fluttu frá Akureyri til Gautaborgar á síðasta ári. Hún er þar í námi, en Birkir segir að líklega muni þau flytja sig um set í kjölfar sigurs hans í Idol. „Við erum að íhuga að flytja til Stokkhólms. Ég var mikið þar vegna keppninnar og var farin að kunna vel við mig í Stokkhólmi; þar eru líka langflest tækifæri til að koma fram og ég þyrfti að vera þar mikið hvort sem er.“

Naut augnabliksins

Dómararnir í Idol lýsti snemma mikilli hrifningu á Birki sem fyrr segir. Hann hélt þó alla tíð ró sinni og segist ekki hafa verið upptekinn af því hvort hann ynni eða ekki; hafi einfaldlega verið ákveðinn í að njóta augnabliksins í hvert einasta skipti og gera sitt besta.

„Ég hugsaði keppnina bara sem tækifæri, ég ætlaði mér að nota það tækifæri eins lengi og ég fengi og hamra svo járnið! Ég var ákveðinn í að njóta þess bara að vera þarna; því lengur, því skemmtilegra, en úrslitin skiptu ekki öllu máli. Ég bjóst aldrei við því að vinna, jafnvel þótt dómararnir töluðu eins og þeir gerðu því þeir ráða engu! Það er fólkið sem kýs.“

Sérstök tilfinning

Spennan var rafmögnuð í lok síðasta þáttarins þegar keppendurnir tveir, Birkir Blær og Jacqline Mossberg Mounkassa, stóðu á sviðinu ásamt Pär Lernström, sem tilkynnti úrslitin.

„Ég held ég hafi ekki hugsað mikið!“ segir Birkir og hlær, þegar spurt er hvað hafi eiginlega farið í gegnum hugann meðan beðið var eftir niðurstöðunni. „Ég var eiginlega búinn að ákveða að það skipti ekki máli hvort ég yrði í fyrsta eða öðru sæti. En það var vissulega pínu skrýtið þegar nafnið mitt var lesið upp. Það var mjög sérstök tilfinning, sem erfitt er að útskýra.“

Birkir segist, aðspurður, hafa velt því fyrir sér hvort Svíar kysu Mounkassa jafnvel frekar þar sem hún væri sænsk.

„Já, ég velti því aðeins fyrir mér. Ég talaði ekki einu sinni tungumálið í byrjun! Var reyndar farinn að geta talað ágætlega á sænsku í lokin en er enn að læra hana,“ segir hann. „Ég held að fólk hafi verið ánægt með að ég skyldi reyna að tala, og líka að ég lagði áherslu á að ég hefði flutt til Svíþjóðar til að búa þar, og yrði áfram alveg sama hvernig gengi í Idol. Að ég hefði ekki komið bara til taka þátt í þessari keppni til að fá athygli.“

Félagsfælnin

Eyfirðingurinn ungi vakti ekki einungis athygli fyrir fádæma tónlistarhæfileika heldur einlæga og heillandi framkomu. Eins undarlegt og það kann að hljóma hefur hann verið félagsfælinn frá barnæsku.

„Ég hef alltaf verið félagsfælinn en mér hefur samt alltaf liðið ágætlega á sviði og – öfugt við marga: því fleiri sem ég syng fyrir, því betra. Þegar kemur að venjulegum samskiptum í daglegu lífi er félagsfælnin hins vegar áberandi en ég hef lært alls konar ráð og nota þau til að losna við hana. Ég geri meðal annars í því að troða mér inn í aðstæður sem mér finnst erfiðar.“

Birkir nefnir afar áhugavert atriði: „Ég komst að því að ég er feimnari á íslensku en sænsku! Þegar ég var að læra móðurmálið var ég mjög félagsfælinn en núna – þegar ég er að læra sænskuna, er ég nokkurn veginn laus við þessa fælni. Núna, þegar ég er hér heima og tala íslensku, finnst mér ég feimnari en undanfarið í Svíþjóð! Svona virðist heilinn virka, sem mér finnst mjög áhugavert.“

Útgáfa og Lollapalooza

Hluti sigurlaunanna í Idol er að koma kom fram á tónlistarhátíðinni Lollapalooza í Stokkhólmi í sumar. „Ég hlakka mikið til þess. Við bræðurnir heimsóttum pabba til Svíþjóðar fyrir nokkrum árum og fórum þá einmitt á Lollapalooza, sem er rosalega skemmtileg hátíð. Hún er stór og mjög vinsæl, ég verð ekkert aðalatriði þar en það verður samt geggjað að koma fram. Ég vona bara að hátíðinni verði ekki frestað eins og síðast.“

Svo er það útgáfusamningurinn við Universal, sem nefndur var í upphafi. „Þetta er samningur um eina plötu, 10 lög, ef ég man rétt. En það er svo sem ekkert skrifað í stein. Líklega er betra að gefa út eitt og eitt lag en heila plötu í einu. Samningurinn er til níu mánaða en svo er aldrei að vita hvað gerist í framhaldinu. Ég vona bara að þetta gangi hjá mér.“

Spennandi verður að fylgjast með Birki Blæ eftir sigurinn í Idol. Honum fylgja allra bestu óskir.

 • Að neðan má sjá þær 50 fréttir sem Akureyri.net birti um Birki Blæ meðan á Idol ævintýrinu stóð. 

Sigurstundin! Birkir Blær, þáttarstjórnandinn Pär Lernström og Jacqline Mossberg Mounkassa á sviðinu í Globen. Ljósmynd: Guðmundur Svansson.

Birkir Blær Óðinsson og Jacqline Mossberg Mounkassa ásamt dómurunum fjórum eftir úrslitaþáttinn. Fremst situr Alexander Kronlund, Katia Mosally er í gula kjólnum, Kishti Tomita við hlið hennar og þá Anders Bagge. Ljósmynd: Guðmundur Svansson

Foreldrar Birkis Blæs og makar þeirra eftir sigurinn. Frá vinstri: Elvý Guðríður Hreinsdóttir móðir Birkir og Eyþór Ingi Jónsson, Jón Óðinn Waage faðir Birkis og Inga Björk Harðardóttir. Ljósmynd: Guðmundur Svansson.

Birkir á Idol-sviðinu í haust.

Birkir Blær og þáttarstjórnandinn Pär Lernström á Idol-sviðinu í Stokkhólmi í átta manna úrslitum. Ljósmynd: Guðmundur Svansson.