Fara í efni
Menning

Herbergi í öðrum heimi – hvert öðru betra

AF BÓKUM – 42

Starfsfólk Amtsbókasafnsins á Akureyri segir lesendum Akureyri.net alla þriðjudaga frá bók eða bókum. Uppátækið vekur vonandi athygli á bókakosti safnsins, þar sem af nógu er að taka, og glæðir áhuga sem flestra á bóklestri.
 

Í dag skrifar Svala Hrönn Sveinsdóttir_ _ _

Mig langar að mæla með bókinni Herbergi í öðrum heimi eftir Maríu Elísabetu Bragadóttur. Bókin geymir sjö smásögur sem allar hafa sín sérkenni og styrkleika og eru að mínu mati, hver annarri betri. María skrifar um fólk, samskipti, tengsl og daglegt líf og tekst einhvern veginn alltaf að leiða lesandann á óvæntar brautir, hvort sem hún fjallar um hugarheim átta ára barna, framhjáhald eða andleg veikindi miðaldra konu. Það sem einkennir sögurnar er sambland af húmor og kaldhæðni og þó stundum þurfi að lesa örlítið á milli línanna, þá er höfundur líka hreinskilinn og segir hlutina nákvæmlega eins og þeir eru, og hikar ekki við að snerta á því sem er brothætt eða óþægilegt.

Ég las bókina fyrst þegar hún kom út og þótti hún mjög góð. Þegar ég las hana aftur nýverið hafði hún hvorki misst styrk né sjarma og ég tók betur eftir því hversu manneskjulegar frásagnirnar eru. María gefur nefnilega góða innsýn í hugsanir og tilfinningar persónanna sem hún skrifar um.
 
Uppáhalds sagan mín heitir ,,Sunnudagsbröns snýst upp í andhverfu sína" og fjallar um samskipti konu, á barmi taugaáfalls, við bæði móður sína og sambýlismann. Þar sýnir höfundur styrkleika sína og skrifar um viðfangsefni sem gæti verið erfitt að nálgast, en hún gerir það af næmni, húmor og hlýju.
 
Ég mæli með bókinni fyrir öll sem vilja njóta vandaðra smásagna sem kalla fram bæði bros og djúpa umhugsun.