Fara í efni
Menning

Hefur alltaf þótt heillandi að skapa

Doddi á vinnustaðnum, Amtsbókasafninu á Akureyri. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Þorsteinn G. Jónsson lánar ekki bara út bækur og kvikmyndir heldur fæst líka við að skrifa bækur. Og horfir mikið á kvikmyndir. Afleiðingar leyndarmálsins, önnur skáldsaga hans, var að koma út; glæpasaga úr höfuðstað Norðurlands.

Doddi, eins og hann kallar sig, er bókasafnsfræðingur og starfsmaður Amtsbókasafnsins. Fer fyrir kvikmyndadeildinni þar á bæ. „Ég er ekki mesti lestrarhesturinn hér, les ekki sérlega mikið miðað við marga en er meiri kvikmyndamaður. Friðrik Rafnsson þýðandi sagði fyrir mörgum árum þegar ég bað hann að renna yfir smásögu sem ég skrifaði, að hún væri mjög kvikmyndaleg,“ segir Doddi við Akureyri.net.

Lag í stað framhalds

„Ég setti mér það markmið að gera ákveðna hluti áður en ég næði vissum aldri; fyrir fertugt ætlaði ég til dæmis að gefa út bók og gerði það, gaf öllum afmælisgestum eintak af bókinni,“ segir hann. Það var bókin Þrennur, sem hann seldi á bókasöfn auk þess að gefa í afmælinu.

Tilefni samtalsins við Dodda er Afleiðingar leyndarmálsins, bókin sem kom út í tilefni fimmtugsafmælis höfundarins á dögunum.

„Ég fékk fín viðbrögð frá þeim sem lásu Þrennur og margir þrýstu á mig að koma með framhald, endir bókarinnar kallar á það, en ekkert varð úr því,“ segir hann. Viðunandi framhald hefur enn ekki verið slegið inn í tölvuna.

Skýringin er að hluta til sú að annað ævintýri tók töluverðan tíma. „Annað markmið sem ég hafði sett mér, og ákvað að einblína á, gekk nefnilega upp í millitíðinni: að semja lag og senda inn í Söngvakeppni Sjónvarpsins. Ég fékk að vísu kurteislega neitun, en náði markmiðinu!“

Handrit á lager

Af skrifum var það svo að frétta að fyrir tveimur árum opnuðust flóðgáttir á ný „og ég blómstraði eftir að Covid skall á! Þá gerðist eitthvað; ég varð fullur af hugmyndum og á núna tvö handrit tilbúin, auk bókarinnar sem var að koma út. Ég er ekki að grínast.“

Enginn þessara þriggja bóka er þó framhaldið sem hann hugsaði svo mikið um! „Ég reyndi, setti pressu á mig að skrifa framhald en mér þannst það aldrei nógu gott. Ég var kominn með um það bil 40% en hætti samt. Enginn þessara bóka er því framhald af þeirri fyrstu en ég ætla ekki að fullyrða að það komi aldrei.“

Afleiðingar leyndarmálsins skrifaði Doddi á síðustu fjórum til fimm mánuðum. „Ástæða þess að ég gef bókina út núna er að ég á kunningja sem lesa yfir hjá mér og tveir þeirra, ólíkir menn, sögðu báðir að þetta væri það besta sem ég hefði skrifað. Góður vinur minn sparkaði svo í rassinn á mér og kom þessu í gang. Bókin er vonandi byrjun á nýju ævintýri; ég gef út sjálfur og nái ég að selja nógu mörg eintök til að borga prentunarkostnaðinn fer ég í að gefa út þá næstu.“

Nýja bókin tengist fyrri bókinni ekki neitt, nema hvað báðar gerast á Akureyri. „Hin er um tímaflakkandi leiðsögumann og bókasafnsafnsfræðing – ekki flókið að átta sig á hvaðan sú hugmynd kemur,“ segir Doddi, sem er ... já, leiðsögumaður og bókasafnsfræðingur. „Hann hittir Náttfara, Þorgeir Ljósvetningagoða, tekur þátt í veislunni á Grund og hittir Schiöth hjónin. Svo fer allt í hönk og hann rústar í raun sögu Akureyrar og þarf að laga þau mistök. Það er líka bók sem ég gæti hugsað mér frekara framhald á.“

Hann nefnir að heldur sé ekki ólíklegt að framhald verði á nýju bókinni. „Þar eru persónur sem ég gæti hugsað mér að taka með mér í fleiri bækur.“

Hljómsveit, leikrit, kór

„Það hefur alltaf blundað í mér að skapa frá því ég var krakki; ég var í hljómsveit, var í leikritum barnaskólans og í kór og hef skrifað smásögur síðan ég var lítill. Ég fór svo að vinna hjá Máli og menningu sem viðhélt áhuga mínum og að hafa Þorvald Þorsteinsson frænda minn áberandi í þjóðfélaginu hafði líka áhrif. Genið er áberandi í fjölskyldunni þótt ég myndi ekki segja að Þorvaldur hafi verið sérstakur áhrifavaldur.

Þetta er fyrst og fremst mér til gamans gert og það væri frábært að koma af stað ferli sem yrði rás fyrir þessa sköpunarþörf mína. Mér finnst ofboðslega gaman að þessu, mér hefur alltaf þótt mjög heillandi að skapa.“