Frjáls tjáning og sterkir litir Magnúsar

SÖFNIN OKKAR – 85
Frá Listasafninu á Akureyri_ _ _
Akureyri.net heldur áfram að opna dyr safnanna í bænum lesendum til fróðleiks og skemmtunar. Það er gert vikulega, á fimmtudögum.
Magnús Helgason
Móa rjómablaðra
2023
Fundinn efniviður, gler og timbur
Magnús Helgason er fæddur í Reykjavík 1977, en hefur búið og starfað á Akureyri síðan 2016. Hann hefur haldið yfir 20 einkasýningar og sýnt kvikmyndir við tónlist ýmissa hljómsveita.
Magnús hóf nám við myndlistarakademíuna AKI í Hollandi 1997 og útskrifaðist þaðan 2001. Hann hefur síðan helgað myndlist, ljósmyndun og ópraktískum kvikmyndum krafta sína. Fyrstu árin einkenndust af tilraunakenndri kvikmyndagerð, en frá 2010 til 2018 varð myndsköpun úr fundnum efnum hans megináhersla þar sem tilviljanir og veðrun mótuðu verkin. Þá vann Magnús gjarnan með fundinn efnivið sem umbreyttist í tvívíð málverk eða þrívíðar innsetningar. Hann raðaði saman hlutum og efnum sem sköpuð voru í öðrum tilgangi og bjó þar með til nýja heild. Árið 2018 þróaðist vinna hans í átt að innsetningum þar sem segulstál og rými urðu lykilþættir í sýningum á Listasafninu á Akureyri, Gerðarsafni og Listasafni Árnesinga. Á síðustu árum hefur tæknileg nálgun eflst með notkun skrefmótora í hreyfilistaverkum.
Verk Magnúsar einkennast af frjálsri tjáningu og sterkum litum. Hann notar oft óræðan texta og býður þar með áhorfandanum að nálgast verkin út frá ákveðnu sjónarhorni. Ekki er óalgengt að hann noti einnig tvíræðni, absúrdisma og húmor í verkum sínum og gerir þar með ákveðnar kröfur til áhorfenda.