Fara í efni
Menning

Fegurðin getur búið í hversdagsleikanum

SÖFNIN OKKAR – IVFrá Minjasafninu á Akureyri_ _ _

Akureyri.net heldur áfram að opna dyr safnanna í bænum lesendum til fróðleiks og skemmtunar. Það verður gert vikulega, á fimmtudögum.

Það geta falist verðmæti í gömlum hlutum. Ekki síst hversdagslegum hlutum, hlutum sem við tökum ekki eftir enda verða þeir nánast ósýnilegir í hversdagslegu hlutverki sínu. Einn góðan veðurdag missa þeir hlutverk sitt eða aðrir hlutir yfirtaka það, þeir verða gleymskunni að bráð og hverfa á sorphaug sögunnar.

Ekki verður öllu safnað. Heldur er unnið eftir söfnunarstefnu enda myndu allar hillur og fermetrar fljótt fyllast ef allt væri tekið til varðveislu sem finna má t.d. á venjulegu heimili, sem rannsóknir sýna að geymi að jafnaði allt að 100.000 gripi á hverjum tíma. Í dag varðveitir Minjasafnið ríflega 30.000 gripi sem safnast hafa upp s.l. 61 árið frá íbúum svæðisins og er valið inn af kostgæfni.

Eitt af því sem horft er til þegar gripir eru teknir til varðveislu er ekki aðeins gripurinn sjálfur. Sögurnar sem fylgja gripum skipta ekki síður máli og stundum jafnvel enn meira máli en hluturinn sjálfur eins og þessir gripir bera með sér sem safninu barst nýverið frá Haraldi Inga Haraldssyni.

Plastslæða

Í eina tíð hafði fólk sig til áður en farið var út úr húsi. Í það minnsta var hárið greitt og lagað. Jafnvel þótt erindið væri bara að skreppa í hverfisbúðina. Ef hárið var uppsett eða túberað (þá leita það út eins og hárið á Marge Simpson) var lykilatriði að það blotnaði ekki því þá var vinnan öll til einskis.

Þessi slæða er úr plasti og hárið því bersýnilegt. Hún var í eigu og notuð af Sigríði Kristbjörgu Matthíasdóttur, móður Haraldar Inga Haraldssonar sem færði safninu nýverið slæðuna. Slæðan er frá því um 1970. Hvort hún varðveitist til eilífðar er óvíst. Efni úr plasti er erfitt að varðveita.

Textahöfundur biðst afsökunar á illa greiddu hári gínunnar en sér til afsökunar þá hefur hann litla reynslu af hári.

Íþróttasokkar / legghlífar

Það hafa verið fleiri íþróttafélög á Akureyri en lesendur þekkja nú. Milli 1960 og 70 voru stofnuð fjölmörg drengjafélög í knattspyrnu. Þetta var yfirleitt framtak eldri drengja sem stjórnuðu liðunum en með tíð og tíma tóku þeir yngri við, þ.e. ef liðin lifðu út sumarið. Brunaliðið, Elding og Svanurinn voru slík félög. Annað félag, stofnað í Ásabyggð um 1965-67 var fótboltafélagið Loginn. Stofnað af nokkrum Brekkusniglum, t.a.m. Steingrími og Páli Jónssonum, Birni Vigfússyni, Hilmari Malmquist, Jakopi og Haraldi Inga Haraldssonum ásamt fleirum.

Starfsemi félagins var metnaðarfull og hannaði móðir Hilmars, Liesel Sigríður Malmquist, búning á kappsfulla drengina. Búningurinn var gulur bolur með skjaldlaga merki á brjósti, ekki ósvipað KA merkinu, rauðar stuttbuxur og sokkarnir á myndinni. Skjaldarmerkið á bolnum var með hvítum grunni og rauðum jaðri, mark þvert yfir skjöld ásamt bolta og rauðgulum loga. Árangurinn á knattspyrnuvellinum er málum blandinn en glæsilegir voru kapparnir á vellinum.

Aðallega var leikið á túninu eða grasblettinum milli Gagnfræðaskóla Akureyrar og tjaldstæðisins. Víða á Brekkunni mátti finna velli enda auðvelt að koma upp mörkum með fatnaði einum saman. Vallaraðstæður voru svona og svona en heimildamaður mundi eftir velli, líklega þar sem Birkilundur og Lerkilundur er nú þar sem sótt var upp eða niður brekku.

Sokkana átti og notaði Haraldur Ingi Haraldsson, fyrrum knattspyrnumaður, safnstjóri og listamaður.

Ef lesendur vita meira eða betur eru þeir beðnir um að hafa samband við Minjasafnið á Akureyri.