Fara í efni
Menning

Falleg, áhrifamikil en sorgleg kynslóðasaga

AF BÓKUM – 37

Starfsfólk Amtsbókasafnsins á Akureyri segir lesendum Akureyri.net alla þriðjudaga frá bók eða bókum. Uppátækið vekur vonandi athygli á bókakosti safnsins, þar sem af nógu er að taka, og glæðir áhuga sem flestra á bóklestri.
 

Í dag skrifar Hrönn Soffíu Björgvinsdóttir_ _ _

Morgnar í Jenín er án efa ein áhrifamesta bók sem ég hef lesið. Hún kom út á íslensku árið 2010 en er svo sannarlega viðeigandi lesefni í dag.

Sagan fylgir palestínskri fjölskyldu frá miðri síðustu öld og til ársins 2002. Við fylgjum lífi fjölskyldunnar frá ólífulundinum í heimaþorpi þeirra til flóttamannabúða í Jenín þegar Ísraelsríki er stofnað. Fjölskyldan gerir sitt besta til þess að lifa eðilegu lífi þrátt fyrir að átök, fordómar og aðskilnaðarstefna setji mark sitt á alla ævi þeirra. Síðar tvístrast fjölskyldumeðlimir meðal annars til Líbanon og Bandaríkjanna en þau líta alla tíð á Palestínu sem sitt heimaland.

Sagan er einstaklega vel skrifuð og ofboðslega falleg en einnig gríðarlega sorgleg. Þetta er mannleg frásögn af því hvernig fólk bregst við áföllum og hörmungum á ólíkan hátt og öllum þeim stóru tilfinningum sem fylgja.

Höfundurinn, Susan Abulhawa byggir söguna að miklu leyti á sögu fjölskyldu sinnar og eigin upplifunum. Bókin er skáldsaga en segir þó frá fjölmörgum atburðum sem raunverulega áttu sér stað. Aftast í bókinni er heimildaskrá þar sem má sannreyna staðhæfingar sem koma fram í sögunni.

Þetta er bók sem ég mæli hiklaust með að öll lesi, ekki síst til að glöggva sig á og fá tilfinningu fyrir sögu Palestínu síðustu 80 árin. Svo ég vitni í eftirmála höfundar: „Þó að persónur bókarinnar séu skáldskapur er Palestína það ekki“.