Fara í efni
Menning

Fagurkeri á orðsins list og fagra muni

Fróðleiksmoli frá Minjasafninu á Akureyri

9. desember – Jól í Davíðshúsi

Í Davíðshúsi við Bjarkarstíg 6 á Akureyri bjó Davíð Stefánsson frá Fagraskógi frá 1944. Húsið lét hann byggja eftir teikningu Harðar Bjarnasonar húsameistara. Davíð var fagurkeri bæði á orðsins list og fagra muni eins og heimilið ber með sér. Húsið er í dag safn og hefur heimilinu verið haldið nær óbreyttu frá því að skáldið féll frá.

Davíð skreytti auðvitað híbýli sín eins og aðrir. Sumt fékk þó að standa lengur en jólin. Þannig stóðu borðskreytingin og jólatréð enn á sínum stað þegar skáldið féll frá 1. mars 1964. Davíð var hins vegar búinn að ganga frá jólabjöllunni og jólalega lampanum inn í skáp í borðstofunni.

Haraldur Þór Egilsson er safnstjóri Minjasafnsins á Akureyri. Fróðleiksmoli frá Minjasafninu birtist á Akureyri.net á hverjum degi til jóla.