Fara í efni
Menning

Engir smámunir – Bók sem allir ættu að lesa

AF BÓKUM – 47

Starfsfólk Amtsbókasafnsins á Akureyri segir lesendum Akureyri.net alla þriðjudaga frá bók eða bókum. Uppátækið vekur vonandi athygli á bókakosti safnsins, þar sem af nógu er að taka, og glæðir áhuga sem flestra á bóklestri.
 

Í dag skrifar Þorsteinn Gunnar Jónsson_ _ _

Stundum skora ég á sjálfan mig að gera eitthvað nýtt, eins og að smakka á einhverju sem ég hef aldrei smakkað áður, hlusta á öðruvísi tónlist eða lesa bók sem ég myndi venjulega ekki lesa. Ég er meira fyrir spennusögur eða handbækur af ákveðnum toga. En fyrir tveimur árum kom út þýðing á bókinni Small things like these eftir Claire Keegan og er íslenska þýðingin kölluð Smámunir sem þessir.

Claire er ein virtasta skáldkona Íra og Smámunir sem þessir hefur farið svokallaða sigurför um heiminn. Þýdd yfir á tugi tungumála, tilnefnd til Booker-verðlaunanna árið 2022 (bókin kom upphaflega út 2021) og hinn geðþekki og fjölhæfi leikari Cillian Murphy lék nýverið aðalhlutverkið í samnefndri kvikmynd sem er byggð á sögunni. Bæði bókin og kvikmyndin eru til í safnkosti Amtsbókasafnsins.

Mitt verkefni eða mín áskorun var að lesa þessa bók og ég verð að segja það að hún hreyfði mikið við mér. Ekki nema 108 bls. en segir svo ótrúlega mikið. Atriði í bókinni fengu mig til að hugsa um ákveðna þætti í mínu eigin lífi og ég er svo mikill stuðningsmaður Bills Furlong.

En hver er það?

Bill Furlong, kola- og timburkaupmaður, er aðalsöguhetja bókarinnar. Hann er kvæntur henni Eileen og saman eiga þau fimm dætur. Sagan gerist í litlum írskum bæ sem heitir New Ross, síðustu vikurnar fyrir jól en það er einmitt annasamasti tími ársins hjá Bill. Hann vinnur allan daginn, kemur seint heim og á ekki langar stundir með fjölskyldunni en gerir þó sitt besta. Alltaf að velta því fyrir sér hvort hægt sé að gera meira fyrir náungann. Morgun einn þegar Bill er að afhenda kol í klaustrið við bæinn kemst hann að dálitlu sem verður til þess að hann fer að hugsa meira um sitt líf, hvernig hans æska hafði verið og hversu nálægt móðir hans og hann sjálfur voru að lenda í allt öðrum og mun sorglegri aðstæðum. Þökk sé hinni góðhjörtuðu frú Wilson.

Í klaustrinu var skóli fyrir ungar og stundum afvegaleiddar stúlkur, sem sumar hverjar höfðu eignast barn kornungar, og þar var líka þvottahús sem notað var af fólki og stofnunum í bænum. Þvotturinn kom alltaf tandurhreinn til baka. Raunveruleg ástæða þess er ömurleg og þótt persónurnar séu skáldaðar, þá eru hrikalegar aðstæður margra þessara ungu kvenna svo sorglegar en byggðar á sönnum atburðum. „Magdalenu-þvottahúsin“ þrifust í áratugi og samfélagið vissi af þessu. Fólk þorði margt hvert ekki eða vildi ekki segja neitt, því áhrif nunnanna og klaustursins voru mikil. Og þegar Bill okkar Furlong gerir sér grein fyrir því að hans eigin móðir hafi verið svo nálægt því að lenda í klaustrinu, þá gerir hann eitthvað í málunum. Hluttekning Bills er sönn og aðdáunarverð.

Síðasta Magdalenu-þvottahúsinu á Írlandi var lokað í október 1996, sem mér finnst bara skuggalega stutt síðan (næstelsta dóttir mín er fædd það ár). Það var ekki fyrr en árið 2013 sem formleg afsökunarbeiðni vegna aðstæðna þessara stúlkna (áætlaður fjöldi þeirra var um 10-30 þúsund) kom frá írskum stjórnvöldum. Þá var Enda Kenny forsætisráðherra og ein af ungu stúlkunum í sögunni er einmitt kölluð Enda.

Þessa bók eiga sem flestir að lesa og ég ætla að gera það aftur ... og reglulega.