Fara í efni
Menning

Efasemdir hverfisráðs um vindmyllur í Grímsey

Grímseyingar vilja fá skýrari svör og upplýsingar um áhrif á fuglalíf, hafa áhyggjur af sjónmengun af vindmyllum og vilja að aðrar umhverfisvænar lausnir í orkumálum til lengri tíma verði skoðaðar betur áður en vindmyllum verður fjölgað. Þetta er inntakið í umsögn hverfisráðs Grímseyjar við tillögum um breytingu á aðalskipulagi og nýtt deiliskipulag fyrir vindmyllur í Grímsey.

Hverfisráð Grímseyjar bendir á að sjónmengun af sex eða fleiri vindmyllum verði veruleg. „Upp á eyju,“ eins og heimamenn nefna austurhlið Grímseyjar, er „ósnortin náttúra, mikið fuglalíf og útsýni yfir björgin og út á haf í allar áttir,“ segir í umsögn ráðsins. Þetta heilli alla sem þangað koma. Hverfisráðið óskar eftir umsögn frá náttúrufræðistofnun um möguleg áhrif framkvæmdarinnar á fuglalíf.

Tilfinningin að sólarsellurnar skili meira rafmagni

Nú þegar hafa risið tvær vindmyllur á svæðinu, sem tilraunaverkefni. Hverfisráðið vill að betur verði unnið úr upplýsingum um árangurinn af þessum tveimur vindmyllum áður en hugað verði að fleiri. „Tilfinning okkar, og mælitækjanna í rafstöðinni, er að sólarsellurnar skili mun meira rafmagni heldur en vindmyllurnar, og að mögulega sé veðurfar í Grímsey of óstöðugt til þess að gagnast vindmyllum,“ segir í umsögn ráðsins. Mögulega séu vindar annaðhvort of miklir eða litlir og meiri selta en gert var ráð fyrir.

Hverfisráðið bendir á að upp hafi komið hugmyndir sem heimamönnum hugnist betur, að bora eftir heitu vatni og að nýta varma í jörðu til varmaskipta á hverri lóð fyrir sig. „Það var ekki fullreynt þegar það var gert á sínum tíma og tækin í dag eru betri. Það er hiti í jörðu við eyjuna og líkur á heitu vatni. Ef ekki finnst vatn verður það þá fullreynt og hægt að taka þann möguleika af borðinu,“ segir í umsögn ráðsins. Þá er einnig bent á þann möguleika að nýta varma í jörðu til varmaskipta á hverri lóð fyrir sig þar sem nú þegar séu mörg heimili með varmadælur til húshitunar og olíuna til vara og vatnshitunar.

Fylgjast með afföllum fugla

Í viðbrögðum Fallorku fyrr á árinu við þeim athugasemdum sem fram höfðu komið í fyrra við breytingar á skipulagi og byggingu vindmylla á svæðinu kemur fram að fyrirtækið gerði samkomulag við Náttúrustofu Norðausturlands um athugun á afföllum fugla vegna vindmyllanna. Verktími á að vera sex mánuðir, frá aprílbyrjun fram til loka september. Að því loknu verði metin þörf á áframhaldi.

Athugun á afföllum byggist einfaldlega á því að finna hræ fugla við vindmyllurnar, telja þau og greina tegundir. Þannig leit færi fram einu sinni í viku allan athugunartímann.

Loftmynd af Grímsey sem sýnir staðhætti og afstöðu þéttbýlisins við það svæði þar sem vindmyllurnar eru. Myndin er skjáskot úr greinargerð Landslags ehf. með deiliskipulagstillögu fyrir svæðið. Sjá einnig skjáskotið hér að neðan.

Fleiri og stærri vindmyllur - eða fjölbreyttari lausnir til viðbótar

Það virðist hins vegar ekki vera ágreiningur um að huga þurfi að orkuskiptum og draga úr notkun jarðefnaeldsneytis. Í viðbrögðum Fallorku kemur til dæmis fram að í ljósi markmiða íslenskra stjórnvalda og Akureyrarbæjar í loftslagsmálum sé ekki mikill tími til stefnu að finna lausnir til að skipta úr því ástandi sem nú ríkir yfir í umhverfisvænni lausnir. Þrjár dísilrafstöðvar eru í rekstri í Grímsey og er árleg notkun til raforkuframleiðslu um 240 þúsund lítrar og um 60 þúsund lítrar til húshitunar, eða samtals um 300 þúsund lítrar á ári.

„Ef Grímsey ætlar að ná landsmarkmiðum um samdrátt í losun fyrir árið 2030 þarf að draga úr brennslu á olíu sem nemur 165.000 lítrum á ári til þessara nota,“ segir í greinargerð Fallorku. Þar segir að miðað við þær forsendur sem stillt hafi verið upp fyrir vindmyllur og sólarsellur muni þreföldun á því kerfi sem nú hefur verið sett upp, það er að fara úr tveimur í sex vindmyllur og 150 fermetra af sólarsellum, taka út 30-40 þúsund lítra af olíu. Ef ekki verði settar upp fleiri eða stærri vindmyllur þurfi að beita fjölbreyttari lausnum til viðbótar.

Í því sambandi er til dæmis bent á sólarsellur á þök húsa, varmadælur, viðarperluofna, orkugeymslur og íblöndun með annarrar kynslóðar lífeldsneyti á dísilvélarnar. Þá er bent á að kostnaðarþátttaka ríkisins í raforkuframleiðslu í Grímsey hafi verið rúmlega 80 milljónir króna árið 2021 og það þýði að hvati ríkisins til að stuðla að orkuskiptum sé ekki aðeins umhverfislegur heldur einnig fjárhagslegur.