Dásamlegt ferðalag með augum barnsins

AF BÓKUM – 36
Í dag skrifar Hólmkell Hreinsson_ _ _
Með minnið á heilanum: Frásagnir úr fjarlægum bernskuheimi
Þórhildur Ólafsdóttir rithöfundur er doktor í frönskum bókmenntum og hefur verið lektor og dósent í frönsku og starfað við Evrópuráðið í Strasbourg.
Þeirri konu kynnumst við þó ekki í þessari bók heldur Þórhildi litlu sem er sveitastúlka á Vatnsnesi upp úr miðri síðustu öld. Í bókinni lýsir hún lífinu í sveitinni: Gestum og gangandi, foreldrum, systkinum og öðru venslafólki með augum barnsins.
Fyrir mig sem alinn var upp í sveit um tíu árum síðar og við annan fjörð þá er hrein unun að lesa þessa bók.
Bæði er stíll og orðfæri Þórhildar frábært en líka er einhver galdur í frásögninni að mér finnst ég vera kominn á bernskuheimili Þórhildar og sjá heiminn með hennar augum. Frásagnarefnið er ekki bara fólkið hennar, heldur líka húsakostur, náttúran, dýrin, verkin, bakkelsi og borðsiðir. Síðast (í bókinni) en ekki síst eru svo nefndar til sögunnar þær bækur sem hún var að lesa. Margir gamlir og góðir kunningjar koma þar við sögu og stundum vorum við Þórhildur sammála og stundum ekki.
Sumar minningarnar eru eins og svipmyndir eða svolítið upplitaðar slædsmyndir meðan aðrar fela í sér heillega atburðarás, jafnvel heilan dag.
Það er alls ekki víst að þessi bók sé við allra hæfi en fyrir mig sem upplifði þessa tíma er hún dásamlegt tímaferðalag og ekki er verra hvað hún er vel stíluð og vel borin fram rétt eins og veitingarnar í töðugjaldaveislunni. Þar stendur orðið „góðgjörðir“ upp úr, sem og setningin: „Er þetta nokkuð vont hjá mér?“