Fara í efni
Menning

Andfætlingurinn ungi og íslenskur veruleiki

AF BÓKUM – 44

Starfsfólk Amtsbókasafnsins á Akureyri segir lesendum Akureyri.net alla þriðjudaga frá bók eða bókum. Uppátækið vekur vonandi athygli á bókakosti safnsins, þar sem af nógu er að taka, og glæðir áhuga sem flestra á bóklestri.
 

Í dag skrifar Hólmkell Hreinsson_ _ _

Mágur minn og svilkona búa í áströlsku borginni Adelaide og þrátt fyrir að fjarlægðin er mikil hafa samskiptin alltaf verið mikil og góð. Eitt af því sem ég og Kathy svilkona mín eigum sameiginlegt er að lesa bækur og tala um bækur og annað það sem bækur gera gott fyrir mann.

Fyrir þó nokkru fengum við í jólagjöf frá þeim hjónum nýja skáldsögu eftir unga konu sem búsett var í Adelaide. Bókin hét „Burial rites“ og fjallaði um síðustu misserin í ævi Agnesar Magnúsdóttur, þeirrar sem sakfelld var og tekin af lífi fyrir morðið á Natan Ketilssyni. Agnes var síðust kvenna til að vera tekin af lífi af yfirvöldum á Íslandi eins og flestum er kunnugt.

Ég játa það að ég hafði mína fordóma gagnvart því að kornung kona, hinum megin á hnettinum væri að skrifa um þessi mál sem gerðust á Íslandi nokkrum árum eftir að Amtsbókasafnið á Akureyri var stofnað og ég las ekki bókina þann veturinn og á enn eftir að lesa hana á ensku.

Þegar bókin kom svo út á íslensku í frábærri þýðingu Jóns St. Kristjánssonar sá ég að það var ekki tilviljun að Kathy hafði sent okkur hana yfir hálfan hnöttinn. Bókin var frábærlega vel skrifuð. Stíllinn lágstemmdur og ljóðrænn. Fangaði að mínu mati hvernig mér finnst að andrúmsloft og umhverfi hafi verið Húnavatnssýslu á fyrri hluta 19. aldar. Satt að segja var ég alveg ofandottinn yfir því hvernig Hannah lýsti daglegu lífi og húsverkum, s.s. sláturgerð og matargerð almennt þannig að mér finnst að svona hafi þetta vafalaust verið.

Samskipti persónanna; allt hið ósagða, allt myrkrið og ógnin sem alltaf vofir yfir. Glæpakvendið Agnes sem birtist á fyrstu síðum bókarinnar verður smám saman mannleg og eins og við öll með okkar drauma, langanir og þrár. Manneskjan á bak við glæpinn vekur hugsanir um mannúð og samúð og hversu margslunginn sannleikurinn getur verið.

Og þar sem margbreytileika sannleikans ber á góma, þá er rétt að minna á að „Náðarstund“ er skáldsaga, hún er ekki sagnfræði og ég mæli eindregið með að hún sé lesin sem slík og lesandinn láti leiða sig inn í þann heim sem Hannah skapar.

Svo var það í sumar að dóttir þeirra hjóna Kathyar og Péturs kom í heimsókn og hafði með sér í farangrinum sendingu frá Kathy: alveg glænýja bók eftir Hönnu sem ber titilinn „Always Home, Always Homesick : a loveletter to Iceland“. Í þeirri bók segir hún frá veru sinni á Sauðárkróki sem skiptinemi á vegum Rotaryhreyfingarinnar árið 2003 og hvaða áhrif sú dvöl hafði á hana í bráð og lengd. Við kynnumst Sauðkrækingum og öðrum Íslendingum, kostum þeirra og göllum með augum andfætlingsins unga og landinu okkar og sumar náttúrulýsinganna eru svo ljóðrænar og fallegar að við lá að ég táraðist.

Í bókinni segir hún líka frá því hvernig hún varð að segja sögu Agnesar Magnúsdóttur og hvernig sú saga varð til.

Það er kannski skrýtið að mæla með bók sem enn er ekki komin út í Evrópu (áætlaður útgáfudagur er 6. nóvember) en ég vona svo sannarlega að hún verði þýdd, þó svo að Hanna segi sjálf að hún sé svolítið hugsi yfir því að bókin komi út á Íslandi. Hún verður allavega til á Amtsbókasafninu svo fljótt sem verða má eftir að hún verður fáanleg í Evrópu.

Fram að því er hægt að lesa Náðarstund, The good people og Devotion eftir Hönnu Kent en þær eru allar til á Amtsbókasafninu.