Tímaráðuneytið er heillandi og grípandi

AF BÓKUM – 45
Í dag skrifar Hrönn Soffíu Björgvinsdóttir_ _ _
Í sumar las ég bókina Tímaráðuneytið eftir Kaliane Bradley og kolféll fyrir bæði sögunni og persónunum.
Bókin fjallar um unga konu sem fær háleynilegt starf hjá nýju dularfullu ráðuneyti, Tímaráðuneytinu. Tækni til tímaferðalaga er orðin að raunveruleika en enn er óvíst hvaða áhrif það hefur á mannslíkamann að ferðast í tíma og rúmi. Til að byrja með eru því aðeins sóttir einstaklingar úr fortíðinni sem voru við dauðans dyr og þeir fluttir til nútíðar. Starf aðalpersónunnar felst í því að vera stuðningsaðili eins þessara einstaklinga og hjálpa honum að aðlagast lífinu í nútímanum ásamt því að skrásetja alla hegðun og líðan. Hún fær úthlutuðum sjóliðsforingjanum Graham Gore sem hefði annars farist í heimskautaleiðangri um miðja 19. öld. (Graham Gore þessi var raunverulega til og ég mæli eindregið með því að hlusta á þátt Veru Illugadóttur um Týnda Franklin leiðangurinn til þess að færðast um örlög Gore og annarra áhafnarmeðlima á Erebus og Terror). Milli kvenhetjunnar og Gore myndast fallegt samband og áður en hún veit af eru sterkar tilfinningar komnar í spilið.
Sagan er fremur róleg framan af en það færist brátt spenna í leikana þegar í ljós kemur að ekki er allt með felldu í starfsemi Tímaráðuneytisins og aðalpersónan okkar fer að efast um hver raunveruleg ástæða verkefnisins er.
Persónur bókarinnar eru dásamlegar en meðal annarra einstaklinga sem sóttir eru úr fortíðinni eru herforingi úr skotgröfum fyrri heimstyrjaldarinnar og kona úr plágunni miklu. Það er sérstaklega gaman að fylgjast með konunni, Maggie, uppgötva kvenfrelsi og frjálsar ástir. Hún ætlar sér svo sannarlega að njóta þessa nýfengna frelsis til hins ítrasta eftir að hafa alla sína ævi verið álíka rétthá og búpeningur.
Ég gleypti þessa bók í mig á tveimur dögum og veit að ég mun lesa hana aftur, örugglega oft. Þetta er góð blanda af sögulegum atburðum, rómans, húmor og spennu og á klárlega erindi við öll þau sem eru veik fyrir tímaferðalögum og „hvað ef“ sögum.