Fara í efni
Menning

Bóndadagur í ár á fæðingardegi Davíðs

Fróðleiksmoli frá Minjasafninu á Akureyri

21. janúar – Bóndadagur

Fyrsti dagur þorra er bóndadagur, sem í ár ber upp á 21. janúar, afmælisdag skáldsins Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi (1895-1964). Í bókinni Kveðjur (1924) er kvæðið Þorrablót, með undirtitlinum - Flutt yfir borðum.

Hljóðs bið ég þá,
sem mig heyra og sjá.
Blóta vilja enn
hinir beztu menn.
Því skal þetta mót
vera Þorrablót.
Blessi ginnhelgi goð
vort gestaboð

Sett skulu grið,
- fylgt gömlum sið.
Vísum öllu á bug
nema vinahug.
Krýni höfðingslund
þessa heillastund. –
Vargur er hver,
sem á véböndin sker.

Drekkum mjöð.
Verum djörf og glöð,
þó fjúki í skjól
undir fölri sól,
þó frostsins rún
marki föðurtún
og Nástrandarél
byrgi norðurhvel.

Drekkum mjöð.
Verum djörf og glöð,
þó vofi sigð
yfir vinatryggð,
þó engu sé vægt,
þó allt sé rægt
og illra orð
séu ódrýgð morð.

Synduga sál
hreinsi sorgarbál.
Hljóti ódrengslund
andvökustund.
Kveifarlýð
herði klaki og stríð,
en hálfvelgjutrú
gangi að Heljarbrú.

Drekkum mjöð.
Verum djörf og glöð.
Dáðleysi og hik
eru drottinssvik.
Hugsun og afl
vinna hættutafl.
Hreystisljóð
skapa hrausta þjóð.

Drekkum mjöð.
verum djörf og glöð.
það var siður forn
við sumbl og horn.
Skálaglam
skýr gleði fram,
eins og örvahríð
þann; sem elskar stríð.

Hrunið hafa björg
í hafið mörg,
þar sem bára blá
skall bergi á.
Brátt þiðnar ís,
þar sem eldi gýs;
eins getur öl
sigrað innra böl

Drekka bið ég þá,
sem drykkinn þrá.
Birt getur enn
kringum blótamenn.
Yfir nyrzta ós
blika norðurljós.
Eldur og mjöll
skreyta Íslandsfjöll.

Á landi ís
skrifar ljóssins dís
örlagaóð
vorri ætt og þjóð.
Á feðranna fold,
í frónskri mold
á hugur og hönd
sín heimalönd.

Drekkum mjöð.
Verum djörf og glöð.
Þórsmark ég dreg
yfir Þorrans veg.
Til mjaðar og máls
er hver maður frjáls.
Blessi ginnhelg goð
vort gestaboð.

Haraldur Þór Egilsson er safnstjóri Minjasafnsins á Akureyri.