Fara í efni
Menning

Bókagjöf frá Kanada og mögnuð sýning

Bókagjöf og sýning! Frá vinstri, Alain Fournier arkitekt, Isabelle Laurier sýningarstjóri, Xavier Rodriguez fulltrúi kanadíska sendiráðsins á Íslandi, Hólmkell Hreinsson, amtsbókavörður og prófessor Rachael Lorna Johnstone, umsjónarmaður náms í heimskautarétti við Háskólann á Akureyri. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Athyglisverð sýning, Inuit Qaujimajatuqangit, var opnuð á Amtsbókasafninu fyrir nokkrum dögum í tilefni 75 ára afmælis stjórnmálasambands Íslands og Kanada á þessu ári. Samtímis afhenti sendiráð Kanada á Íslandi formlega tvær bókagjafir; annars vegar Amtsbókasafninu, hins vegar Háskólanum á Akureryri.

Á sýningunni gefur að líta list kanadískra frumbyggja; verk sem valin voru eftir samkeppni sem haldin var meðal Inúíta á Inuit Nunangat svæðinu í Kanada, um listskreytingar fyrir Norðurslóðarannsóknarmiðstöð Kanada (CHARS) í Ikaluktutiak. Miðstöðin var tekin í notkun árið 2019 og farin var sú leið að listaverkin eru hluti byggingarinnar.

Sýningin samanstendur af verkum sem valin voru af innsendum tillögum og unnin eru undir yfirskriftinni Tímalaus sköpunargleði Inúíta í fortíð og nútíð, og er ætlað að varpa ljósi á samband hefðbundinnar þekkingar Inúíta við tækni og vísindi heimsins í dag. 

Sendiherra Kanada á Íslandi, Jeannette Menzies var stödd á Íslendingaslóðum í Winnipeg í Kanada og ávarpaði samkomuna í gegnum fjarbundabúnað, en fulltrúi sendiráðsins á staðnum var Xavier Rodrigues. Arkitektinn Alain Fournier og sýningarstjórinn, Isabelle Laurier, voru einnig við opnun sýningarinnar á Amtsbókasafninu. Sýningin stendur út þennan mánuð.

Fjölbreyttar bækur

Bækurnar sem gefnar voru Amtsbókasafninu eru á ensku og frönsku, þar á meðal fræðibækur, barnasögur, unglingaskáldskapur, glæpasögur og matreiðslubækur. Hólmkell Hreinsson, amtsbókavörður, var himinlifandi með gjöfina og sagði stefnt að því að safnið eignaðist mun meira af kanadískum bókmenntum.

Háskólinn á Akureyri fékk hins vegar að gjöf kanadískar bækur til heimskautaréttarnáms við skólann. „Verk nokkurra áhrifamikilla frumbyggjafræðinga eru innifalin í þessari afmælisgjöf frá Kanada. Þeirra á meðal eru prófessor John Borrows sem hélt gestafyrirlestra fyrir heimskautaréttanemenda í vor, með stuðningi frá sendiráðinu. Bækurnar hans eru meðal fjölda verka sem sendiráðið gaf, ásamt ritum eftir Jesse Wente, Dr Paulette Regan, prófessor Michael Asch og fleiri,“ segir á vef háskólans.

Prófessor Rachael Lorna Johnstone, sem stýrir heimskautaréttarnáminu (Polar Law) við HA, segir gjöfina koma sér afar vel. „Við erum mjög ánægð með að taka á móti þessum frábæru bókum,“ segir hún. „Að bæta skilning okkar og kennslu á sögu, lögum og meginreglum frumbyggja er mikilvægt fyrir árangursríka samvinnu á norðurslóðum. Þetta getur verið erfitt á Íslandi sem er eina norðurskautsríkið með enga frumbyggja í lagalegum skilningi; en þessar bækur leggja mikið af mörkum til þess.“

Haft er eftir Jeannette Menzies, sendiherra Kanada á Íslandi, á vef háskólans: „Justin Trudeau, forsætisráðherra, hefur oft lýst því yfir að „ekkert samband er mikilvægara fyrir Kanada en sambandið við frumbyggja,“ og sendiráðið er ánægt að eiga samstarf við Háskólann á Akureyri til að styðja við kennslu þeirra um réttindi frumbyggja. Við deilum markmiðum Polar Law námsins um að forgangsraða fullri þátttöku frumbyggja í ákvörðunum sem hafa áhrif á þá, á alþjóðlegum, svæðisbundnum og staðbundnum vettvangi, sérstaklega á norðurslóðum.“

Rachael Lorna Johnstone, Xavier Rodriguez, Hólmkell Hreinsson, Jeannette Menzies (á skjánum), Isabelle Laurier og Alain Fournier.

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, ávarpar viðstadda við opnun sýningarinnar. Sendiherra Kanada á Íslandi, Jeannette Menzies, á skjánum - stödd í Winnipeg í Kanada.

Frá vinstri: Sigríður Vilhjálmsdóttir og Kristín Konráðsdóttir, bókasafnsfræðingar við bókasafn Háskólans á Akureyri, Hólmkell Hreinsson, amtsbókavörður og Rachael Lorna Johnstone, sem stýrir heimskautaréttarnáminu við HA.