Fara í efni
Menning

Barmmerki Loftleiða á Flugsafni Íslands

SÖFNIN OKKAR – XXXIII

Frá Flugsafninu á Akureyri_ _ _

Akureyri.net heldur áfram að opna dyr safnanna í bænum lesendum til fróðleiks og skemmtunar. Það er gert vikulega, á fimmtudögum, og mikið ánægjuefni er að í dag bætist Flugsafn Íslands við.

Á morgun, föstudag, verður opnuð sýningin Loftleiðir 80 ára, 1944 - 2024 í Flugsafni Íslands á Akureyri. Af því tilefni birtum við hér mynd af fallegu barmmerki sem þetta merkilega flugfélag lét útbúa.

Stofnendur Loftleiða árið 1944 voru Alfreð Elíasson, Kristinn Olsen og Sigurður Ólafsson en félagið sameinaðist Flugfélagi Íslands árið 1973 undir nafninu Flugleiðir, en félagið heitir nú Icelandair.

Merkið er gylltur fugl og á því stendur með dökkbláum stöfum: LOFTLEIÐIR. Barmmerkið var í eigu Búa Snæbjörnssonar flugvirkja og flugvélstjóra, sem færði safninu það að gjöf.

Búi hóf störf hjá Flugfélagi Íslands 1947. Hann nam flugvirkjun við Cal-Aero í Glendale í Kaliforníu 1949 og 1950 og sneri að því loknu aftur til starfa hjá Flugfélagi Íslands en réði sig síðan til Loftleiða (síðar Flugleiða, Icelandair) og starfaði þar sem flugvirki og flugvélstjóri allt til starfsloka árið 1996.

Vert er að nefna að árlegur Flugdagur Flugsafns Íslands verður á laugardaginn kl. 13.00-16.00 á Akureyraflugvelli þar sem mikið verður um dýrðir að vanda.