Fara í efni
Menning

200 ára bók Jane Austin á enn fullt erindi

AF BÓKUM – 26

Starfsfólk Amtsbókasafnsins á Akureyri segir lesendum Akureyri.net alla þriðjudaga frá bók eða bókum. Uppátækið vekur vonandi athygli á bókakosti safnsins, þar sem af nógu er að taka, og glæðir áhuga sem flestra á bóklestri.

Í dag skrifar Dagný Davíðsdóttir_ _ _

Bókina sem ég ætla að mæla með að þessu sinni þarf vart að kynna, en hún er rúmlega 200 ára gömul og talin hafa sett tóninn fyrir fjölmargar rómantískar skáldsögur síðan. Þetta er auðvitað bókin Hroki og hleypidómar eftir Jane Austen í frábærri íslenskri þýðingu Silju Aðalsteinsdóttur.
 

Hroki og hleypidómar er einstaklega vel skrifuð skáldsaga sem fangar lesandann frá fyrstu síðu. Hún á fullt erindi við lesendur nútímans þrátt fyrir að hafa fyrst komið út árið 1813. Hún er lífleg og skemmtileg og fjallar um Elizabeth Bennet, unga konu sem býr með fjölskyldu sinni í sveit á Englandi á 19. öld. Foreldrar hennar óska þess að hún og systur hennar giftist auðugum mönnum, þar sem fjölskyldan býr ekki við góðan fjárhag og engin systranna erfir föður sinn.

Elizabeth hittir herra Darcy, ríkan og virðulegan mann, en þeim kemur illa saman við fyrstu kynni. Hún heldur að hann sé stoltur og hrokafullur, en hann heldur að hún sé ekki nógu fín fyrir hann. Þau dæma hvort annað strax og eru bæði með hleypidóma. Bókin fjallar um hvernig þau kynnast betur, læra að skilja hvort annað og átta sig á eigin mistökum. Hún fjallar líka um hvernig fólk þarf stundum að breyta viðhorfum sínum og horfa dýpra en bara á útlit og stétt. Persónurnar eru eftirminnilegar og samtölin beitt og oft fyndin.

Í apríl tók ég alveg óvart skemmtilegt lestrartímabil þar sem ég las þrjár bækur eftir Jane Austen í íslenskri þýðingu. Kvikmyndin Pride and Prejudice frá árinu 2005 hefur lengi verið ein af mínum uppáhalds myndum svo það var alveg kominn tími til að prófa að lesa bókina. Ég byrjaði á bókinni, horfði þrisvar á kvikmyndina, las svo Emmu og horfði á kvikmyndina frá 2020 og las síðan Aðgát og örlyndi og horfði svo á myndina Sense and sensibility frá 1995. Svo það má segja að það hafi verið ákveðið þema hjá mér í apríl, en ég bara gat ekki hætt.

Ég mæli hiklaust með þessari bók og auðvitað bíómyndinni líka, sem er einstaklega falleg. Rammarnir eru oft eins og málverk og tónlistin dásamleg. Næst á dagskrá hjá mér er að horfa á Pride and Prejudice þættina frá 1995.