Fara í efni
Mannlíf

Mér hefur aldrei dottið í hug að gefast upp

Bjarni Freyr fer á hverjum degi í líkamsrækt til þess að honum líði bærilega. Hér hitar hann upp á hlaupabretti í World Class við Sundlaug Akureyrar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Bjarni Freyr Guðmundsson, rekstrarstjóri Vodafone á Norðurlandi, stórslasaðist þegar hann var 18 ára og tjáir sig nú í fyrsta skipti opinberlega um slysið og afleiðingar þess. Fyrsti og annar hluti viðtals Akureyri.net við Bjarna birtust í gær og fyrradag og hafa greinarnar vakið gríðarlega athygli og viðbrögð.

Bjarni var heppinn að lamast ekki fyrir neðan háls í slysinu, eins og hann sagði í fyrsta hluta viðtalsins og hafði eftir lækni. Raunar má telja hann heppinn að hafa lifað slysið af. Hann var gríðarlega efnilegur knattspyrnumaður en draumur um atvinnumennsku varð að engu eftir slysið. Í gær sagði hann svo m.a. frá því gríðarlega áfalli þegar faðir hans veiktist af krabbameini og lést fáeinum mánuðum síðar, aðeins 49 ára.

Hér verður fram haldið þar sem frá var horfið í gær. Þetta er þriðji og síðasti hluti viðtalsins við Bjarna Frey.

Í GÆR Hélt í hönd pabba þegar ég sá lífið hverfa

Á MÁNUDAG  – Ótrúleg heppni að ég lamaðist ekki fyrir neðan háls

Bjarni Freyr við svalirnar á æskuheimilinu þar sem hann féll fram af og stórslasaðist á sínum tíma. Handriðið á svölunum er hærra nú en það var þá. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Árið 2012 rættist gamall draumur Bjarna þegar hann æfði með meistaraflokki Þórs í knattspyrnu allt sumarið. „Ég spurði Palla Gísla, sem þjálfaði Þórsliðið, hvort ég mætti ekki æfa með þeim mér til gamans og hann tók mér vel. Halldór Áskelsson og Hreinn Hringsson voru honum til aðstoðar það ár. Ég var með þessu að loka því sem ég ætlaði mér, sem var að geta aftur stundað þessa frábæru íþrótt, fótbolta, þó það væri ekki nema eitt sumar og þó ég myndi ekki spila neitt, ég vildi bara fá útrásina í boltanum og gleðina sem því fylgir að spila skemmtilegustu íþrótt í heimi,“ segir Bjarni.

Bólgueyðandi og verkjastillandi ...

„Það var nú ekki átakalaust að komast í gegnum þetta sumar en mér gekk nokkuð vel að kljást við þessa ungu stráka tel ég, miðað við að hafa ekki verið í fótbolta í 15 ár. Eymslin í hálsinum hafa alltaf verið mér til mestra vandræða eftir slysið og það kostaði slatta af bólgueyðandi og verkjastillandi töflum að komast í gegnum þetta sumar en það var svo sannarlega þess virði!“

Þarna var Bjarni búinn að haka í langþráð box; draumurinn um að æfa og spila fótbolta eitt sumar með alvöru leikmönnum á ný hafði ræst.

Veturinn eftir, árið 2012, stofnaði hann fótboltahópinn El Clasico á Akureyri, skemmtilegan félagsskap sem Akureyri.net fjallaði um 5. febrúar 2021 – sjá hér: Ekki rifist um Þór og KA – bara enska boltann

„Þar gat ég fengið útrás í fótbolta, í dag erum við 75 skráðir í hópinn, 15 til 25 mæta á æfingu í hvert skipti, allt miklir keppnismenn sem hafa einhvern tíma verið í alvöru fótbolta, ef svo má segja.“

Á æfingu með El Clasico snemma árs 2021. Frá vinstri: Hákon Arnarsson, Bjarni Freyr Guðmundsson og Steingrímur Eiðsson. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Bjarni segir að tala megi um bumbubolta þegar hópurinn er annars vegar, „þó fæstir séu með bumbu. Þeim fer þó fjölgandi! En félagsskapurinn er frábær, gulrót hvers árs er bikarkeppni KSÍ – sem við höfum tekið þátt í hvert einasta ár – en aðalmálið er reyndar að vera með glæsilegt lokahóf eftir fyrstu umferð í bikarkeppninnar, sem er líklega einsdæmi!“

Auk bikarkeppninnar hefur El Clasico takið þátt í Kjarnafæðismótinu síðustu ár, æfingamóti sem Knattspyrnudómarafélag Norðurlands stendur fyrir.

Boginn og pabbi

„Við æfum tvisvar í hádeginu í Boganum, fótboltahúsinu á Akureyri, húsi sem er mér mjög kært. Þannig er að pabbi tók þátt í löngum undirbúningi að byggingu hússins. Ég veit að skoðuð voru mörg hús og í umræðunni var að byggja hálft hús, eins og það var kallað; hús þar sem yrði bara pláss fyrir hálfan fótboltavöll, en pabbi var á því að byggja ætti hús í fullri stærð. Það var draumur hans að fótboltahús í fullri stærð yrði reist við Hamar. Ég man svo að árið 2002, þegar ég var kominn suður og farið að lengja eftir því að húsið yrði að veruleika, að ég hringdi borubrattur í bæjarstjórann á Akureyri, Kristján Þór Júlíusson. Þeir voru miklir mátar en pabbi var hafnarstjóri á Akureyri í rúm 20 ár áður en hann lést.“

Bjarni kveðst hafa lagt einfalda spurningu fyrir bæjarstjórann: ætlaði hann ekki að klára verkefnið sem pabbi var farinn af stað með; að reisa fótboltahúsið? Úr varð, hvort sem það hafði eitthvað með mitt símtal að gera, að framkvæmdir hófust fljótlega og mannvirkið hefur verið gríðarlega mikilvægt fyrir allt Norðurland.“

Brjósklos vegna slyssins

Eftirköst slyssins um verslunarmannahelgina árið 1995 eru fleiri en Bjarni hefur áður nefnt í spjallinu við Akureyri.net. „Fyrir þremur árum greindist ég með brjósklos í hálsi og baki, en hef líklega verið með það síðan eitt ár var liðið frá slysinu. Eftir að ég greindist fékk ég viðeigandi meðferð en hætti henni fljótlega þar sem ég fann mína eigin sem virkaði best; að notast við heimatog á hálsinum nokkrum sinnum í viku og guð minn almáttur hvað lífið varð betra við það! Ég trúði því ekki hvað mörg einkenni hurfu sem ég var löngu hættur að átta mig á að væru ekki bara eitthvað eðlilegt – verkir niður í fætur, út í hendur, sjónin varð skýrari og tilfinning í andliti kom sterkari inn svo eitthvað sé nefnt.“

Bjarni segir allt það sem hann hefur þurft að glíma við eftir slysið „verkefni sem þarf að yfirstíga,“ eins og hann orðar það. „Mér hefur aldrei dottið í hug að gefast upp; aldrei hefur neitt annað komið til greina en að halda bara áfram og að koma mér í sem best stand til þess að vera til staðar fyrir börnin mín. Ég er með mikið keppnisskap, sem hefur hjálpað mér bæði í þessum verkefnum, í starfi mínu og lífinu almennt. Mér hefur tekist að yfirstíga þær hindranir sem fyrir mig eru lagðar og ég mun halda því áfram.“

Bjarni á æfingu. Hann fer í líkamsrækt á hverjum degi. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Bjarni tekur þannig til orða að hann hafi fundið góða uppskrift sem virkar fyrir hann og segist aldrei hafa verið betri en nú. „Fyrir utan heimatogið á hálsi þá fer ég daglega í ræktina og geri mínar æfingar á mínum hraða og mínum forsendum og hef náð að bæta í hægt og rólega. Heima er ég með heitan og kaldan pott sem ég nota reglulega.“

En það óhjákvæmilega hefur gerst að fótboltaskór Bjarna eru komnir á hilluna. Það var raunar fyrir tveimur árum. „Loksins, myndu örugglega margir segja,“ segir Bjarni og nú hlær hann. „Læknar segja líklega að þeir hefðu átt að fara á hilluna 25 árum fyrr en það var aldrei inni í myndinni. Og þótt ég hafi ekki átt þann fótboltaferil sem mig dreymdi alltaf um er ég sáttari en ella vegna þess að ég gat leikið mér í fótbolta í 25 ár. Í raun hef ég sennilega aldrei verið betri en einmitt nú, hvorki á sál ná líkama.“

Þó er vert að geta þess að fótboltaskór Bjarna safna ekki ryki á hillunni góðu heldur eru teknir fram einu sinni á ári; Bjarni tekur alltaf þátt í Pollamóti Þórs sem haldið er ár hvert fyrir 30 ára og eldri.

Kenndi mér um örlög pabba

„Ég kenndi mér lengi um örlög pabba, þar sem veikindi mín lágu mjög þungt á honum en það er eitthvað sem gerir engum gott að hugsa þannig til lengdar,“ segir Bjarni Freyr þegar talið berst aftur að föður hans, Guðmundi Sigurbjörnssyni.

Bjarni segir að eftir á hyggja, þegar hann horfir til baka, geti hann ekki verið sáttari með eigin örlög en raunin hefur orðið, „fyrir utan það að elsku pabbi kvaddi allt of fljótt, aðeins 49 ára. Í dag, þegar ég er sjálfur orðinn 46 ára, og að nálgast þennan aldur, sér maður alltaf betur og betur hversu ungur hann var þegar hann lést.“

Bjarni með foreldrum sínum og systkinum. Frá vinstri: Einar Már, Bjarni Freyr, Klara, Bjarney Sigvaldadóttir og Guðmundur Sigurbjörnsson. Guðmundur lést aðeins 49 ára eftir stutta baráttu við krabbamein.

„Þrátt fyrir slysið og það að ég missti af draumum mínum hvað varðar fótboltann, er ég mjög hamingjusamur. Ég eignaðist yndislega fjölskyldu; yndislega konu og börn sem eflaust hefðu ekki komið til ef örlög mín hefðu verið önnur og fyrir það er ég ævinlega þakklátur. Ég hef því ekki undan neinu að kvarta, þarf bara að hafa aðeins meira fyrir því en margir að halda mér góðum en það eru forréttindi að hafa fundið réttu uppskriftina.

Ég nýt hvers dags með fjölskyldu minni og börnin mín eru mér allt; ekkert gleður mig meira en að þeim gangi vel í því sem þau taka sér fyrir hendur og eru glöð og sátt. Ég tek engu sem sjálfsögðum hlut. Ég kem fram við alla af virðingu því allir eiga sína sögu, allir eru að glíma við eitthvað en allir eiga rétt á því að þeim geti liðið vel. En það er undir okkur sjálfum komið að láta svo verða.“

Mjög hamingjusamur

Bjarni starfar sem rekstrarstjóri Vodafone á Norðurlandi, eins og áður kom fram. Arna eiginkona hans er markaðsstjóri Bílaleigu Akureyrar/Hölds.

Börn þeirra þrjú sem áður voru nefnd blómstra öll, segir stoltur faðirinn. „Bjarney Sara útskrifaðist frá Menntaskólanum á Akureyri 2020 ásamt kærasta sínum, Sveini Margeiri Haukssyni sem leikur með meistaraflokki KA í fótbolta. Þau eru í dag við nám í Háskóla Íslands og útskriftast þar eftir eitt ár. Bjarney Sara er í sálfræði og Sveinn Margeir í vélaverkfræði. Þau eru flutt heim í sumar og það er frábært að hafa alla krakkana nálægt sér,“ segir Bjarni.

Í faðmi fjölskyldunnar; þess dýrmætasta sem Bjarni Freyr á í dag! Hann og eiginkonan, Arna Skúladóttir, í sófanum og dóttirin Bríet Fjóla á milli þeirra. Fyrir aftan eru, frá hægri, dóttirin Bjarney Sara, Sveinn Margeir Hauksson kærasti hennar, og Björgvin Máni, sonur Bjarna og Örnu. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Björgvin Máni byrjaði í Menntaskólanum á Akureyri haustið 2020, er mikið efni í fótboltanum og er í dag samningsbundinn KA en var lánaður í sumar í lið Völsungs frá Húsavík sem leikur í 2. deildinni og hefur byrjað mjög vel þar. Hann færði sig yfir í VMA eftir einn vetur í MA þar sem fótboltinn er honum allt og sá skóli hentar mun betur þegar æfingar eru bæði kvölds og morgna, að sögn föður hans.

Bríet Fjóla er í 7. bekk í Lundarskóla. Hún er sömuleiðis mikið efni í fótboltanum, er á yngra ári í 4. flokki KA en æfir nánast eingöngu með 3. flokki Þórs/KA.

Mikilvægt heilræði!

„Ég er mjög hamingjusamur að börnin mín séu í íþróttum en set enga pressu á þau svo þau upplifi mína drauma í fótbolta, nema síður sé. Þau eru yndislegar persónur, eldklár og geta látið alla drauma sína rætast með vinnusemi og gleði í farteskinu.“

Bjarni þjálfaði knattspyrnustráka í 3. flokki KA í nokkur ár og segist alltaf hafa kvatt hópinn á haustin með sömu skilaboðunum. Bjarni talar sannarlega af reynslu og segir boðskapinn enn í fullu gildi enda haldi hann honum sífellt á lofti með þessum orðum: „Framundan eru fyrstu skrefin í framhaldsskóla. Það er spennandi tími sem á að vera skemmtilegur, en hann getur líka verið hættulegur á margan hátt. Látið áfengi og vímuefni vera og draumar ykkar munu rætast!“

Bjarni á vinnustaðnum á Glerártorgi; hann er rekstrarstjóri Vodafone á Norðurlandi. Ljósmynd: Haraldur Ingólfsson