Fara í efni
Mannlíf

Ótrúleg heppni að ég lamaðist ekki fyrir neðan háls

Bjarni Freyr við svalirnar á æskuheimilinu þar sem hann féll fram af og stórslasaðist á sínum tíma. Handriðið á svölunum er hærra nú en það var þá. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Bjarni Freyr Guðmundsson var snemma mjög efnilegur knattspyrnumaður og átti sér stóra drauma á þeim vettvangi. Hann ætlaði sér að verða atvinnumaður í þessari vinsælustu íþrótt veraldar og það var örugglega raunhæft markmið. Hræðilegt slys þegar Bjarni var 18 ára gerði þann draum hins vegar að engu – og sannleikurinn er sá að það þótti ótrúleg heppni að Bjarni skyldi ekki slasast mun verr en raunin varð.

Bjarni, sem er rekstrarstjóri Vodafone á Norðurlandi, hefur aldrei tjáð sig opinberlega um slysið og hið gríðarlega áfall sem það var honum og fjölskyldunni en gerir það nú í samtali við Akureyri.net. Fyrsti hluti af þremur birtist í dag.

Þór, auðvitað!

Bjarni fæddist 11. janúar 1977 og fáeinum misserum síðar fluttust foreldrar hans í íbúð í raðhúsi sem þau byggðu ásamt þremur öðrum hjónum innst við Borgarhlíð í Glerárhverfi. Þaðan blasa Glerárskóli og íþróttasvæði Þórs við út um eldhúsgluggann.

Faðir Bjarna var Guðmundur heitinn Sigurbjörnsson og móðir hans er Bjarney Sigvaldadóttir. „Pabbi var lengi mjög öflugur í starfi fyrir Þór, formaður knattspyrnudeildar og síðar formaður félagsins. Svo var hann til dæmis líka í byggingarnefnd Hamars, félagsheimilis Þórs, ásamt tveimur öðrum eðal Þórsurum, Gísla Kristni Lórenzsyni – Kidda Lór – og Hallgrími Skaptasyni,“ segir Bjarni.

„Ég man ekki eftir mér nema með fótbolta á tánum. Byrjaði að æfa fimm eða sex ára og fann fljótt að þetta var það sem ég ætlaði mér að gera – alltaf. Það kom aldrei annað til greina í mínum huga en að verða atvinnumaður í fótbolta þó að í minningunni hafi það aldrei verið rætt en ég vissi það alltaf og man að ég hugsaði það oft en það eru aðrir tímar nú og orðið mun opnara og raunhæfari kostur en þá var og kannski meira rætt.“

Bjarni Freyr, til hægri, og Kristján Örnólfsson sem er árinu eldri. Myndin er tekin þegar þeir léku í 5. aldursflokki Þórs.

Bestur í öllum yngri flokkum

„Ég æfði alla tíð fótbolta með Þór – annað kom auðvitað aldrei til greina, enda bjuggum við hjá vellinum og pabbi var gríðarlega harður Þórsari,“ segir Bjarni.

„Mér gekk mjög vel í gegnum alla yngri flokka. Á þeim tíma mátti velja þann besta eftir keppnistímabilið og ég var valinn besti leikmaður í öllum yngri flokkum, 6., 5., 4. og 3. flokki.“

Bjarni kveðst hafa verið afar hamingjusamt barn og allt leikið í lyndi. „Þetta voru allt frábær ár og ég gat ekki verið sáttari í eigin skinni, leiðin áfram var bein; eina spurningin var hvenær allt yrði endanlega fullkomið og ég kominn í atvinnumennsku.“

Í hóp með hetjunum

Það var svo strax á fyrsta ári Bjarna í 2. aldursflokki að hann fékk tækifæri með hetjunum í meistaraflokki. „Snemma um vorið 1994, þegar ég var nýorðinn 17 ára, kom Sigurður heitinn Lárusson til mín þar sem ég var í klefanum eftir leik með 2. flokki og bað mig að líta á æfingu með meistaraflokki næsta dag.“

Þetta var stór stund í lífi hins unga knattspyrnumanns.

„Þarna vissi ég að komið var að því sem ég hafði beðið eftir frá því ég var 10 ára. Næsta dag mætti ég á æfingu og þá var ekki aftur snúið, ég æfði með meistaraflokki allt sumarið þar sem Þór lék í efstu deild og var í hóp allt sumarið. Þarna voru margir frábærir leikmenn eins og Gummi Ben, Lárus Orri Sigurðsson, Hlynur Birgisson, Ormarr Örlygsson, Júlíus Tryggvason, Birgir Karlsson og Þórir Áskelsson svo einhverjir séu nefndir, allt gaurar sem maður hefði litið upp til á uppvaxtarárunum.“

Lokahóf knattspyrnudeildar Þórs haustið 1994. Frá vinstri: Guðmundur Benediktsson, besti leikmaður meistaraflokks, Arnar Bill Gunnarsson, besti leikmaður 2. flokks, Bjarni Freyr Guðmundsson, efnilegasti leikmaður meistaraflokks og 2. flokks – þá á yngsta ári í þeim aldursflokki – og Ólafur Pétursson markvörður.

Þakklátur Sigga heitnum Lár

Bjarni heldur áfram: „Um sumarið hugsaði ég oft um að þetta væri undanfari að einhverju stærra. Hef ábyggilega verið nálægt því að panta mér farmiða til Englands eða Þýskalands! Veturinn leið og ég æfði vel en var farinn að finna fyrir eymslum í hné, sem hafði plagað mig talsvert árin á undan. Fyrst voru það vaxtaverkir í 3. flokki sem er með ólíkindum þar sem ég var nú aldrei stór; var til að mynda sá næst minnsti á af fermingarstrákunum á Akureyri það árið! En það plagaði mig samt aldrei; mér leið aldrei eins og ég væri stuttur – alls ekki! Mér fannst ég hafa svo margt fram yfir aðra að ég pældi ekki í því.“

Stjörnum prýtt lið Þórs féll úr efstu deild haustið 1994. „Það hefði líklega mátt nota unga manninn aðeins meira um sumarið – nei, ég er bara að grínast!“ segir Bjarni. „Ég er ævinlega þakklátur Sigga Lár og bar og ber ómælda virðingu fyrir þeim frábæra manni sem gaf mér mín fyrstu tækifæri í boltanum með þeim bestu. Siggi féll frá allt of snemma, árið 2019, blessuð sé minning hans.“

Hnémeiðsli hrjáðu Bjarna áfram „og svo fór að í byrjun júní þurfti ég í aðgerð á hné, sem var í raun bara speglun. Þá voru fjarlægð einhver brjósk og liðþófi sem var að valda mér pirringi.“

Speglunin gekk vel. „Ég var fljótlega byrjaður að skokka og sparka í bolta, og stefndi á að ná seinni umferð Íslandsmótsins af krafti með Þórsliðinu.“

Í faðmi fjölskyldunnar. Bjarni Freyr og eiginkona hans, Arna Skúladóttir, í sófanum og dóttirin Bríet Fjóla á milli þeirra. Fyrir aftan eru, frá hægri, dóttirin Bjarney Sara, Sveinn Margeir Hauksson kærasti hennar, og Björgvin Máni, sonur Bjarna og Örnu. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Kvöldið örlagaríka

Fallegt sumarkvöld í ágúst gripu örlögin hins vegar í taumana. „Þá gerðust hlutir sem ég er enn að eiga við í dag, sem settu veröld mína á hvolf og feyktu draumum mínum út um gluggann á einu kvöldi,“ segir Bjarni. Hann lenti í mjög alvarlegu slysi og læknar upplýstu Bjarna að í raun væri ótrúlegt að afleiðingarnar hefðu ekki orðið miklu verri en raun ber vitni.

„Læknir sem skoðaði myndirnar eftir slysið og sá áverkann vel sagði ekki skilja hvernig ég slapp við að lamast fyrir neðan háls,“ segir Bjarni.

„Það var þannig að við hittumst nokkrir félagar heima hjá mér á fimmtudagskvöldi, 5. ágúst árið 1995. Þetta var fyrsta kvöldið um verslunarmannahelgi og nú ætluðum við að hafa gaman. Foreldrar mínir, Guðmundur Sigurbjörnsson, hafnarstjóri á Akureyri og formaður Þórs, og Bjarney Sigvaldadóttir, hárgreiðslukona og yngri systir, Klara, voru á Síldarævintýrinu á Siglufirði. Eldri bróðir minn, Einar Már, var byrjaður að búa með núverandi konu sinni Katrínu Melstað, svo ég var einn heima. Þetta var því kjörið tækifæri til að bjóða vinunum heim. Þetta átti að vera skemmtileg helgi, engar æfingar og bara saklaus skemmtun,“ segir Bjarni.

„Þess má geta að ég var ákveðinn í því þegar ég var yngri að drekka aldrei áfengi. Mér fannst ekki töff að drekka og langaði það aldrei, en þegar ég var að verða 18 ára byrjaði ég að prófa, vegna þess að allir mínir félagar og vinir voru í raun löngu byrjaðir.

En þetta kvöld, fyrsta kvöld um verslunarmannahelgi, árið 1995 byrjuðum við vinirnir heima og sátum og spjölluðum, kvöldið byrjaði vel og allir í góðum gír.“

Síðan var haldið niður í miðbæ. „Þar fórum við á milli staða, ég og einn félagi minn árinu eldri og mun þolmeiri í drykkju; við dældum í okkur skotum, það var svakalega gaman en ungur og stjarnfræðilega vitlaus ungur drengurinn vissi ekkert hvað hann þoldi. Við héldum áfram, fórum á milli staða, drukkum meira og alltaf voru tekin skot með.“

Féll fram af svölum

Fljótlega eftir miðnætti, þegar um það bil hálftími var liðinn af fallegum föstudegi, kveðst Bjarni hafa verið búinn að fá nóg. „Ég rölti út af einum staðnum í leit að fari heim. Þar var bróðir minn á rúntinum eins og tíðkaðist mjög á þessum tíma, hann tók mig upp í og skutlaði mér heim. Þegar heim var komið þá kvaddi hann mig og spurði hvort hann ætti ekki að aðstoða mig og fylgja mér inn. Ég afþakkaði það, sagðist vera góður og færi létt með að rölta inn – sem voru mín stærstu mistök. Ég fór inn heima, kveikti á græjunum og man að ég stillti á lag með Bubba Morthens og spilaði hátt, sem er ekki í frásögur færandi og kemur engum á óvart sem mig þekkja!“

Bjarni bjó sig undir að ganga til náða. „Alltaf þegar ég var einn heima svaf ég í herbergi foreldra minna, stóru og góðu herbergi. Þetta kvöld kom ég mér fyrir í rúminu og var á hraðri leið inn í draumaheiminn þegar mér varð skyndilega óglatt og ákvað að standa upp.“

Fréttin um slysið. Úrklippa úr Degi 

Svefnherbergið er á 2. hæð og svalir fyrir utan herbergið. „Ég ákvað að fara út á svalir til að fá mér frískt loft og man að ég lagðist fram á handriðið sem var frekar lágt, náði mér upp í nára. Framan á svölunum héngu fínir og flottir blómapottar. Ég leggst fram á handriðið og set hendurnar á blómapottana.“

Hann stóð þarna stundarkorn til að ná úr sér ógleðinni, segir Bjarni, en kveðst greinilega hafa slakað full mikið á. „Ég sofnaði nefnilega og steyptist fram af svölunum; féll um þrjá og hálfan metra og lenti á höfðinu, nánar tiltekið á hnakkanum hægra megin. Ég vöðlaðist einhvern vegin saman, fór í kuðung þegar ég lenti og man að ég var mikið skrámaður ofan á tánum.“

Lífsbjörg

„Húsið stendur frekar afskekkt þannig að engin bílaumferð er nálægt og ekki mikið um mannaferðir á þessum tíma nætur þegar nánast enginn er á ferli,“ segir Bjarni. „Hins vegar var ég svo heppinn að tveir 15 ára strákar, Gísli Hilmarsson og Helgi Rúnar Pálsson, þremur árum yngri en ég, voru á leið heim til sín og styttu sér leið yfir lóðina okkar. Þá voru tveir klukkutímar liðnir frá því ég féll fram af svölunum.“

Þegar strákarnir fundu Bjarna vantaði klukkuna 20 mínútur í þrjú um nóttina.

„Ég man að þeir sögðust hafa labbað fram hjá svölunum og tekið eftir einhverju liggjandi þarna, en töldu það bara bull; tónlistin var á fullu inni, greinilega mikið partí í gangi og eðlilega vildu þeir bara koma sér sem fyrst í burtu. En til allrar guðslukku snéru þeir við og sáu mig liggjandi í blóði mínu á steinsteyptri stéttinni fyrir neðan svalirnar. Ég á þeim svo sannarlega lífið að þakka og er ævinlega þakklátur fyrir þeirra aðkomu að þessu. Man að pabbi bauð þeim út að borða fljótlega eftir slysið til að launa þeim eitthvað fyrir þessa ómetanlegu lífsbjörg.“

Strákarnir hringdu og báðu um að sjúkrabíll yrði sendur á staðinn. Bjarna var komið á sjúkrahús í skyndi en man ekkert eftir sér fyrr en klukkan 15 daginn eftir. „Ég man að læknirinn spurði mig þá um nafn og einhverjar fleiri upplýsingar um sjálfan mig og þóttist sjá að læknirnir urðu glaðir; ég hlyti að vera í lagi!“

Hann mundi hins vegar ekkert hvað hafði gerst fyrr en að nokkrum dögum liðnum. „Þá rifjaðist þetta allt upp fyrir mér,“ segir Bjarni.

Bjarni kveðst aldrei gleyma stundinni þegar móðir hans kom að sjúkrabeði sonar síns. „Ég var nývaknaður og fyrstu orðin mín voru: FYRIRGEFÐU MAMMA!“

Meira á morgun