Fara í efni
Mannlíf

Aldrei rifist um Þór og KA – bara enska boltann!

Brynjar Davíðsson og Bjarni Freyr Guðmundsson. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.

Hress karlahópur kemur saman í Boganum tvö hádegi í viku og leikur sér í fótbolta. Leikur sér er hugsanlega ekki nógu fast að orðið kveðið, því þótt vinátta og gleði skíni í gegn er mikil keppni í gangi. Dregið er í lið í hvert skipti, stig hvers og eins samviskusamlega skráð; sigurleikir, skoruð mörk, varin skot og þar fram eftir götunum, og allt gert fagmannlega upp fyrir jólafrí, og aftur um vorið.

Hópurinn heitir því lítilláta nafni El Clasico og var stofnaður 2012. „Þetta voru og eru alls konar strákar, venjulegur hópur sem leikur sér saman en það var 2014 sem okkur datt það snjallræði í hug að taka þátt í bikarkeppni KSÍ; það byrjaði sem brandari, eins og það að taka þátt í Kjarnafæðismótinu núna,“ segir Bjarni Freyr Guðmundsson, stofnandi liðsins, við Akureyri.net. „Klikkuðu hugmyndirnar eru oft bestar. Segja má að bikarkeppnin sé stóra málið hjá okkur, enda höldum við alltaf lokahóf eftir bikarleik!“

Mikil lífsgæði

Flestir í hópnum eru komnar af allra léttasta skeiði sem íþróttamenn. „Í félaginu eru miklir  keppnismenn; strákar sem hafa spilað fyrir Þór og KA, bæði handbolta og fótbolta, en eru nú miklir vinir,“ segir Brynjar Davíðsson, fyrrverandi markvörður úr Þór, sem segir blaðamanni frá félagsskapnum ásamt Bjarna Frey. „Dæmi: Eggert Sigmundsson, markmaður úr KA, var svarinn óvinur minn í mörg ár. Ég var markmaður í Þór og hann var óvinur! Ég þoldi hann ekki! Kemur svo ekki í ljós, þegar við erum orðnir rúmlega fertugir, að hann er yndislegur náungi. Það eru mikil lífsgæði að vera orðinn fertugur og átta sig á því að maður geti átt vini í KA!“ segir Brynjar og hlær.

Annað dæmi er um einn KA-manninn í hópnum sem aldrei þoldi Ármann Pétur Ævarsson, enda gerði Þórsarinn sá erkifjendunum oft skráveifu. Eftir að Manni lagði keppnisskóna á hilluna hóf hann að leika sér með El Clasico hópnum, og þá áttaði KA-maðurinn sig á því hvern mann nýliðinn hafði að geyma.

Bikarkeppnin

Fyrir utan æfingar hefur þátttaka í bikarkeppni KSÍ verið fastur punktur í tilverunni og um þessar mundir tekur El Clasico þátt í fyrsta skipti í Kjarnafæðismótinu, árlegu æfingamóti sem norðlenskir knattspyrnudómarar standa fyrir. Þátttakan er reyndar í nafni Nökkva, og hópurinn hefur leikið í bikarkeppninni sem slíkur.

Fyrsti leikur El Clasico/Nökkva, var gegn Völsungi á Húsavík í bikarkeppninni sumarið 2014. „Við ákváðum að gera þetta með stæl; mættum í rútu, allir í jakkafötum með stór heyrnartól eins og maður sér marga leikmenn í Englandi, sumir með sólgleraugu,“ segir Bjarni Freyr. „Þegar Raggi Hauks vinur okkar, þjálfari Völsungs á þeim tíma, sá þessa töffara mæta til leiks fór hann með sína menn inn í klefa og kom þeim í skilning um að fyrir þessum gaurum mættu þeir alls ekki tapa! Enda fór svo að þeir unnu okkur 11:0! Það sló okkur þó ekki út af laginu og næsta ár töpuðum við bara 1:0 fyrri Dalvík og ári síðar mættum við Völsungi aftur. Uppleggið var aðeins annað þá og við töpuðum 1:0. Klúðruðum dauðafæri í blálokin en vorum flestir mjög fegnir, því við höfðum alls ekki úthald í framlengingu!“

Fjórða árið í bikarkeppninni mættu okkar menn liði Geisla úr Aðaldal á Akureyrarvelli og unnu loks, 7:1. Næsti mótherji var Magni frá Grenivík sem vann öruggan sigur, 5:1, og ári síðar mætti El Clasico/Nökkvi liði KF úr fjallabyggð og tapaði 6:0.

Tíminn leið og næsta bikartap var fyrir KF, þegar liðin drógust aftur saman. „Við komumst í 2:0, þeir jöfnuðu 2:2 og við skoruðum í uppbótartíma en markið var dæmt af, sem var rangur dómur. Dómarinn gleymdi breytingu sem gerð hafði verið á reglum. Allt varð brjálað og einn okkar var úrskurðaður í tveggja ára bann í kjölfarið. Að vísu var það tveggja leikja bann, en það jafngildir tveggja ára banni í okkar tilfelli!“

Í fyrra dróst liðið gegn Samherjum úr Eyjafirði og tapaðist leikurinn 3:0. Liðin mættust aftur í Kjarnafæðismótinu um síðustu helgi, okkar menn voru fullir sjálfstrausts en urðu aftur að sætta sig við tap, 1:0. „Ósanngjarnt,“ heyrðist hvíslað úr þeirra herbúðum. Leikurinn var í beinni útsendingu á Facebook og liðið verður aftur í eldlínunni annað kvöld, þegar það mætir KA 3 í Boganum.

Heima með Binna

Æfingar féllu niður í langan tíma í fyrra vegna Covid en hópurinn dó ekki ráðalaus og hittist oft rafrænt, á tónleikum Brynjars Davíðssonar, markvarðar og trúbadors. „Það var þegar Helgi Björns hætti eftir fyrstu törn vinsælla sjónvarpsþátta; menn vildu halda fjörinu áfram á laugardagskvöldum og byrjaði þannig að ég var heima í stofu, ætlaði að spila þrjú lög fyrir strákana í þessum lokaða hóp, en svo fór að ég hélt tveggja tíma tónleika í fimmtán skipti! Enda voru samkomurnar kallaðar Heima með Binna og stundum var fleirum leyft að njóta. Einu sinni varð úr mikil gleði hjá frændum mínum í Grímsey sem tóku þátt í fjörinu.“ Já, lífið er víst ekki bara fótbolti.

Bara rifist um enska boltann

Akureyringum er gjarnan skipt upp í tvo hópa; ekki eftir stjórnmálaskoðunum, trúarbrögðum eða slíkum mælikvörðum, heldur hvort þeir fylgja KA eða Þór að málum. Rígurinn milli félaganna er þekktur og þykir sumum nóg um, en flestir hafa blíðkast með árunum að því sagt er.

Bjarni og Brynjar segja aldrei rifist um Þór og KA í hópnum, þvert á móti hafi myndast mjög sterk vinátta á milli manna. „Hins vegar er leyfilegt að rífast um ensku knattspyrnuna, og mikið gert af því!“ Bjarni er raunar gott dæmi um að allt er breytingum háð; sjálfur lék hann lengi með Þór, faðir hans heitinn, Guðmundur Sigurbjörnsson, var líka mikill Þórsari og formaður félagsins. Tengdafaðir Bjarna, Skúli Ágústsson, er mikill KA-maður og var leikmaður ÍBA á sínum tíma. Bjarni býr með fjölskyldunni á Brekkunni, börn þeirra Örnu Skúladóttur eru í KA og hann hefur sjálfur þjálfað hjá félaginu. Svona er lífið!

Merki El Clasico segja þeir félagar gott dæmi um samhygð og vináttu. Það er hannað af tvíburunum Ómari og Ingvari Ívarssonum, annar helmingurinn í laginu eins og merki KA, hinn eins og merki Þórs. Þrjár stjörnur eru í merkinu, ein stór og tvær minni. „Stór stjarna var sett á treyju liðsins eftir sigur á Geisla í bikarkeppninni; eina sigurleik félagsins til þessa. Við höfum átt þrjá búninga og þegar sá síðasti var gerður var tveimur litlum stjörnum bætt við, okkar fannst það skynsamlegt, til að þurfa ekki að láta útbúa nýjar treyjur eftir næstu sigra, sem þóttu líklegir. Þeir eru reyndar ekki enn orðið fleiri þannig að við skuldum sjálfum okkur í raun tvo sigra!“ segir foringinn, Bjarni Freyr.

Handboltakempan Jónatan Magnússon grípur til gamalkunnugs bragðs á æfingu El Clasico á dögunum ... Reynir að stöðva Jón Pétur Indriðason, án árangur!

Lið El Clasico eftir bikarleik síðast sumars.

Ég trúi því ekki að ég hafi ekki skorað! Arnar Grétarsson og Ottó Hólm Reynisson.

Skúli Eyjólfsson og Friðrik Friðriksson.

Pétur Heiðar Kristjánsson og Bjarni Freyr Guðmundsson.

Hákon Arnarsson, Bjarni Freyr Guðmundsson og Steingrímur Eiðsson.

Andri Geir Viðarsson, Sveinn Orri Vatnsdal, Þórður Sigmundur Sigmundsson og Hannes Arnar Gunnarsson, markvörður; líklega eini Grímseyingurinn sem hefur tekið þátt í móti á vegum KSÍ, að sögn Bjarna og Brynjars.

Siguróli Sigurðsson eltir Georg Fannar Haraldsson. Ætlar augljóslega ekki að láta hann komast mikið lengra!

Ottó Hólm Reynisson ekki tekinn neinum vettlingatökum! Unnsteinn Tryggvason, Finnur Bessi Sigurðsson og Hákon Arnarsson með honum á myndinni.