Fara í efni
Mannlíf

Hélt í hönd pabba þegar ég sá lífið hverfa

Bjarni Freyr í vinnunni. Hann er rekstrarstjóri Vodafone á Norðurlandi. Ljósmynd: Haraldur Ingólfsson

Bjarni Freyr Guðmundsson, rekstrarstjóri Vodafone á Norðurlandi, stórslasaðist þegar hann var 18 ára. Hann ræddi í fyrsta skipti opinberlega um slysið og afleiðingar þess í viðtali sem birtist hér á Akureyri.net í gær. Bjarni var heppinn að lamast ekki fyrir neðan háls, eins og hann sagði þá og hafði eftir lækni. Raunar má telja hann heppinn að hafa lifað slysið af. Bjarni var einn heima þegar hann féll fram af svölum á heimili fjölskyldunnar snemma nætur og lá þar í blóði sínu á steinsteyptri stétt þegar tveir unglingspiltar urðu hans varir fyrir algjöra tilviljun tveimur klukkustundum síðar.

Fyrsti hluti viðtalsins birtist í gær og sá þriðji og síðasti verður birtur á morgun.

Hér verður fram haldið þar sem frá var horfið í gær.
_ _ _

Það var um verslunarmannahelgi sem Bjarni slasaðist. Foreldrar hans, Bjarney Sigvaldadóttir hárgreiðslukona og Guðmundur Sigurbjörnsson, hafnarstjóri á Akureyri og formaður Þórs, voru á Síldarævintýrinu á Siglufirði ásamt dótturinni Klöru. Þau voru vitaskuld látin vita af slysinu eins fljótt og auðið var og flýttu sér heim til Akureyrar.

„Ég get ekki ímyndað mér bílferðina frá Siglufirði sem var mun seinfarnari en í dag því göngin milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar voru ekki komin. Ég get heldur ekki ímyndað mér, verandi faðir í dag, hvernig það er að upplifa slíka stund. En faðir minn, sem var mjög löghlýðinn maður og keyrði til dæmis aldrei yfir hámarkshraða, hringdi í lögregluna á Akureyri þegar hann var lagður af stað og tilkynnti að sonur hans hefði lent í alvarlegu slysi á Akureyri, hann væri sjálfur á Siglufirði og myndi keyra á 160 kílómetra hraða til Akureyrar. Þeir mættu ráða því hvort þeir reyndu að stoppa hann á leiðinni eða ekki! Pabbi og mamma komust heilu og höldnu heim og ekki var reynt að stoppa þau.“

Bjarni með foreldrum sínum og systkinum. Frá vinstri: Einar Már, Bjarni Freyr, Klara, Bjarney Sigvaldadóttir og Guðmundur Sigurbjörnsson. Guðmundur lést aðeins 49 ára eftir stutta baráttu við krabbamein.

Bjarni var myndaður strax nóttina sem hann slasaðist og þá kom í ljós að þrír hryggjarliðir höfðu fallið saman í brjóstbaki og hann var höfuðkúpubrotinn. „Það var mér til happs að það blæddi út um hægra eyrað á mér í en ekki inn á heilann,“ segir Bjarni og bætir við: „Það voru ummerki um blóðið í mörg ár á stéttinni heima, blettur sem var um einn fermeter.“

Gekk vel – en lenti svo á vegg

Eftir slysið tók við mikil endurhæfing. „Ég man að strax eftir að ég vaknaði hugsaði ég um að ekki kæmi neitt annað til greina en að ég myndi jafna mig og það fljótt. Fótboltinn var mér allt og það kom ekkert annað til greina,“ segir Bjarni, en hann var mjög efnilegur knattspyrnumaður og ætlaði sér langt á þeim vettvangi.

Endurhæfingin gekk ótrúlega vel í fyrstu, segir Bjarni. „Svo vel að ég náði seinni umferðinni með meistaraflokki Þórs sumarið 1996, rúmu ári eftir slysið. Enda var ekkert annað í boði, eins og ég sagði, en að koma mér af stað enda vissi ég að ég ætlaði mér að ná alla leið og efaðist aldrei um annað en að svo myndi verða.“

Bjarni lítur stoltur til baka. Segist hafa leikið vel þetta sumar, skorað mörk „og til gamans má geta þess að til eru greinar þar sem talað var um mig sem næsta Gumma Ben, sem var mikill heiður, enda Gummi – Guðmundur Benediktsson – einn besti leikmaður Þórs og Íslands frá upphafi. Maður leit mikið upp til hans á þessum tíma.“

Haustið 1996 dundi ógæfan hins vegar yfir aftur. „Ég lenti á vegg. Fann að eitthvað var ekki eins og það átti að vera, mig svimaði mikið og skynfærin voru í rugli. Það er erfitt að lýsa þessu fyrir þeim sem ekki hafa lent í því. Ég reyndi eins og ég mögulega gat að koma mér aftur af stað en lenti alltaf á vegg. Skrokkurinn þoldi greinilega ekki meir en ég fékk samt enga greiningu. Það var ekkert að mér, að sögn lækna.“

Bjarni fer daglega í ræktina; það er nauðsynlegt til að halda líkamanum eins góðum og mögulegt er vegna eftirkasta slyssins. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Algjör hryllingur

Bjarni segist alla tíð hafa þurft að fara sínar eigin leiðir í kjölfar slyssins. „Enginn læknir hefur tekið mig að sér og leitt mig áfram,“ segir hann. „Það má segja að raðir tilviljana hafi orðið til þess að ég hef komið mér á þann stað sem ég er á í dag. Ég átti mjög erfitt árin 1996 til 1998 en hef nánast aldrei rætt það við nokkurn mann, varla við mína allra nánustu. Þessi tími var algjör hryllingur og þess vegna hef ég forðast að ræða hann.“

Bjarni hugsar upphátt: „Hvernig gat það gerst að lífsglaðasti strákur á jörðinni skyldi allt í einu eiga erfitt með að standa á fótunum? Svimaði, gat ekki legið á bakinu vegna svima? Var hættur að geta borðað vegna ógleði?“

Hann heldur áfram: „Um áramótin 1997/1998 dregur móðir mín mig til geðlæknis sem mér fannst fáránlegt þá. Þar sem ég var enn þá svo glaður en samt svakalega reiður og sár, varð úr að ég var settur á kvíða- og þunglyndislyf sem er í raun það besta sem ég hef gert. Ég man að nokkrum dögum síðar vaknaði ég og gekk upp stigann heima, sá allt í fókus, skynfærin voru að lagast og þunginn í hausnum var að hverfa. Þarna fann ég að nú væri þetta komið, næstu vikur gengu vel og mér leið að öllu leyti miklu betur. Ég gat byrjað að æfa fótbolta aftur.“

Lenti á öðrum og stærri vegg

Nokkrum vikum síðar, um miðjan janúar 1998, segist Bjarna aftur hafa lent á vegg. „Þá lenti ég á öðrum vegg, sem mig óraði ekki fyrir að gæti hent mig eða fjölskyldu mína. Þetta var miklu stærri veggur en sá sem ég þurfti að klífa eftir slysið: faðir minn og móðir komu inn í herbergið mitt og vildu ræða við mig. Ég taldi það vera um mig og hvað mér væri farið að ganga vel, en nei; pabbi sagðist þá vera með krabbamein á lokastigi, magakrabbamein sem væri búið að dreifa sér í lifur og eitla. Með trega sagðist hann eiga sex mánuði eftir samkvæmt því sem læknir segðu.

Þetta augnablik hefur ekki horfið úr huga mínum og mun aldrei gera. Fram undan var erfið lyfjameðferð hjá elsku pabba sem aldrei hafði verið veikur og hafði aldrei kvartað yfir neinu; hann hafði alltaf verið hraustur og var aðeins 48 ára þegar hann greindist.“

Rússíbanareið

Mánuðirnir liðu, tími sem Bjarni segist hafa verið rússíbanareið. „Æxlið hafði minnkað eina vikuna en stækkað þá næstu, minnkað aftur og stækkað þá næstu. Alltaf barðist pabbi hetjulega. Hann ætlaði ekki að láta þetta buga sig, ætlaði alltaf að sigra þennan fjanda, eins og hann sagði sjálfur,“ segir Bjarni.

„Það var svo 7. júlí, sex mánuðum eftir greininguna að hringt er í mig þar sem ég var í sumarvinnu í bakaríi og sagt að pabbi væri mjög veikur; ég þyrfti að drífa mig heim. Ég sat á rúminu og hélt í hönd hans þegar ég sá lífið hverfa, á síðustu andartökunum var svo mikill sársauki í andliti hans að það var erfitt að horfa upp á það, en undir það síðasta lá hann með lokuð augun og svo kom þetta stóra, fallega bros á andlit hans á því andartaki sem hann hætti að anda. Þarna viss ég að hann var kominn á betri stað, laus við allan sársaukann sem hann mátti glíma við síðustu mánuðina.“

Bjarni segir erfitt hafa verið að taka þessu áfalli. „Ég fluttist suður til Reykjavíkur um tveimur mánuðum eftir þetta. Ég gat ekki hugsað mér að vera lengur á Akureyri, vildi hverfa frá öllum þessum slæmu hlutum sem höfðu skollið á mig og fjölskyldu mína síðustu þrjú ár.“

Arna

Skömmu áður en Bjarni hélt suður til höfuðborgarinnar kynntist hann akureyrskri stúlku, Örnu Skúladóttur. „Það er það besta sem gat gerst. Við vorum í fjarsambandi um haustið en svo flutti hún til mín suður um áramótin og við byrjuðum að búa,“ segir Bjarni og ljómar þegar hann hugsar til baka. Þau Arna hafa verið saman síðan. „Fyrsti engillinn okkar, Bjarney Sara, fæddist 19. maí 2001, við eignuðumst annan engil 6. maí árið 2004, hann heitir Björgvin Máni, og svo fæddist þriðji engillinn, Bríet Fjóla, þann 5. janúar 2010.“

Í mörg ár segist Bjarni hafa reynt að koma sér af stað í fótbolta en ekkert gekk. „Bakið bauð ekki upp á það, hvað þá hálsinn,“ segir hann. „Við áttum hins vegar frábær ár í Reykjavík og vorum þar allt til ársins 2010. Við vorum bæði í námi fyrstu árin og fórum svo að vinna.“

Árið 2007 greindist Bjarni með hrygggigt. „Það eru afleiðingar slyssins 1995 og ég fer því á sjúkrahús á sjö vikna fresti í lyfjainngjöf, sem var algjör bylting og gerir mikið fyrir mig enn í dag. Ég losnaði við alla þá miklu verki sem höfðu hrjáð mig allar götur frá slysinu.“

Bjarni Freyr í vinnunni. Hann er rekstrarstjóri Vodafone á Norðurlandi. Ljósmynd: Haraldur Ingólfsson

Flytja aftur heim

Árið sem Bríet Fjóla fæddist, 2010, ákváðu Bjarni og Arna að flytjast aftur til Akureyrar. „Við ætluðum að prófa að búa fyrir norðan í eitt ár en eftir að við komum norður varð ekki aftur snúið; börnin urðu strax alsæl og við gátum ekki hugsað okkur að flytja aftur suður. Hér var allt til alls og það hefur ekkert breyst.“

Ungu hjónin settust að á Brekkunni. Þórsarinn Bjarni hafði búið í Glerárhverfi, Þorpinu, eins og áður kom fram en KA-maðurinn Arna á Brekkunni. Faðir hennar, Skúli Ágústsson – einn Kennedy-bræðranna svokölluðu – er KA-maður, mikill afreksmaður í íþróttum, knattspyrnu, skautahlaupi, íshokkí og golfi. Eiginkona Skúla er Fjóla Stefánsdóttir og hafa þau bæði reynst Bjarna virkilega vel í einu og öllu, segir hann. „Alveg einstök hjón.“

„Við fluttumst sem sagt á Brekkuna og börn okkar hafa alltaf æft með KA hér á Akureyri og Bjarney Sara, sú elsta, var í fimleikum,“ segir Bjarni og er að sjálfsögðu alsæll og stoltur af börnum sínum. Hann hefur sjálfur starfað fyrir KA, hefur þjálfað ungt knattspyrnufólk árum saman.

Bjarney, móðir Bjarna, býr á Akureyri ásamt sambýlismanni sínum í dag, Gísla Jóni Kristinssyni arkitekt, sem Bjarni segir að hafi reynst móður hans mjög vel. „Það er frábært að elsku mamma geti notið lífsins í góðum félagsskap og þau eru dugleg í golfi saman og fara reglulega í ferðir erlendis með golfkylfurnar að vopni.“

Meira á morgun

Í GÆR Ótrúleg heppni að ég lamaðist ekki fyrir neðan háls

Í faðmi fjölskyldunnar. Bjarni Freyr og eiginkona hans, Arna Skúladóttir, í sófanum og dóttirin Bríet Fjóla á milli þeirra. Fyrir aftan eru, frá hægri, dóttirin Bjarney Sara, Sveinn Margeir Hauksson kærasti hennar, og Björgvin Máni, sonur Bjarna og Örnu. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson