Fara í efni
Íþróttir

Segja Fimleikafélagið í raun gjaldþrota

Fimleikafélag Akureyrar er með aðstöðu í íþróttamiðstöð Giljaskóla. Mynd: Akureyrarbær

Gjaldþrot vofði yfir Fimleikafélagi Akureyrar í vor og sumar vegna mikilla skulda. Akureyrarbær hljóp undir bagga með launagreiðslur sumarsins og fastráðnu starfsfólki var sagt upp. Skilyrði af hálfu bæjarins var að félagið færi í sameiningarviðræður við annað félag. Viðræður eru hafnar við Þór og KA, en eru á algjöru byrjunarstigi.

Fimleikafélagið boðaði til félagsfundar síðastliðinn þriðjudag þar sem fjármál og kostnaðargreining voru á meðal fundarefna. Í fundargerð sem birt hefur verið á heimasíðu félagsins kemur fram að í vor, þegar stjórn fór að skoða bókhald og innistæður betur eftir vinnu við vorsýningu hafi komið í ljós að skuldir félagsins yrðu yfir 20 milljónir í lok sumars. „Ljóst var að ekki yrði hægt að greiða laun þann 1. júlí,“ segir í fundargerðinni. Þá höfðu viðræður við Landsbankann ekki skilað árangri og yfirdráttarheimild sem nú þegar stendur í sex milljónum króna fékkst ekki hækkuð. Íþróttabandalag Akureyrar og Fimleikasamband Íslands gerðu félaginu jafnframt grein fyrir að þar væri enga fjárhagsaðstoð að fá. Stjórnin ákvað þá að segja upp fjórum fastráðnum starfsmönnum félagsins. 

Þegar ljóst varð að ekki væri í boði viðbótarfjármagn frá Akureyrarbæ óskaði stjórnin eftir öðrum fundi með fulltrúum bæjarins og var þar upplýst að eins og staðan væri yrði að lýsa félagið gjaldþrota. Að því búnu var samþykkt hjá bænum að aðstoða við launagreiðslur sumarsins með því skilyrði að kostnaðargreining yrði unnin og farið yrði í sameiningarviðræður við annað félag.

Viðræður hafa áður átt sér stað og voru komnar í gang 2018, en urðu að engu þar sem ekki var meirihlutavilji fyrir sameiningu innan þáverandi stjórnar, að því er fram kemur í fundargerðinni.