FIMAK slitið og fimleikadeild KA stofnuð?
Í kvöld ræðst væntanlega hver framtíð Fimleikafélags Akureyrar og fimleikaíþróttarinnar á Akureyri verður. Aðalfundur Fimleikafélagsins verður haldinn í kvöld kl. 20:30 í matsal Giljaskóla. Efni fundarins er samkvæmt auglýsingu sameining við KA og slit á Fimleikafélagi Akureyrar.
Þreifingar áttu sér upphaflega stað bæði við stjórnendur Þórs og KA og er niðurstaðan, eins og fram kemur í fundarboðum, annars vegar hjá FIMAK að félagið sameinist KA og hins vegar hjá KA að stofnuð verði ný fimleikadeild innan félagsins.
Fram kom í fréttum í sumar að staða Fimleikafélagsins væri afar erfið og það væri í raun gjaldþrota og var í því sambandi vitnað í fundargerð félagsfundar sem haldinn var 8. ágúst. Niðurstaða í viðræðum félagsins við Akureyrarbæ í sumar varð að bærinn myndi hlaupa undir bagga með launagreiðslur sumarsins.
Á sama tíma, eða um það bil, boðar aðalstjórn KA til félagsfundar í kvöld kl. 19:30. Aðalstjórn hefur samþykkt að mæla með og leggja fyrir félagsmenn stofnun fimleikadeildar innan KA, að því er segir í frétt á vef félagsins, sem er þá í raun hið aflagða Fimleikafélag að renna saman við KA og verða ný deild í félaginu.
Á sama fundi mun aðalstjórn kynna stöðu uppbyggingarmála á félagssvæði KA.