Sædís Heba úr SA er skautakona ársins
Stjórn Skautasambands Íslands (ÍSS) hefur útnefnt Sædísi Hebu Guðmundsdóttur skautakonu ársins 2025, í samvinnu við afreksnefnd sambandsins. Þá var Sædís Heba einnig útnefnd Skautakona listskautadeildar Skautafélags Akureyrar, annað árið í röð.
Sædís Heba er 16 ára gömul og stundar nám í 1. bekk í Menntaskólanum á Akureyri. Hún æfir með Skautafélagi Akureyrar undir leiðsögn Jönu Omelinová. Á árinu keppti hún meðal annars á European Youth Olympic Festival og Sonja Heine Trophy. Á vormóti ÍSS hlaut hún 118,92 heildarstig, sem er persónulegt met hjá henni. Þá tók hún þátt í báðum Junior Grand Prix mótunum, í Riga og Gdansk, þar sem hún bætti árangur sinn milli móta og sýndi stöðugar framfarir, eins og greint er frá í umsögn ÍSS.
Sædís er í 176. sæti á heimslista fyrir Junior Women og er eini kvenkyns skautarinn á listanum. Í umsögn ÍSS segir ennfremur: „Sædís Heba er fremsti íslenski skautarinn í Junior flokki og hefur sýnt sig og sannað með frammistöðu sinni bæði innan- og utanlands. Hún er metnaðarfull, einbeitt og sýnir mikla þrautseigju og verður gaman að fylgjast með henni á næstu árum.“