Fara í efni
Íþróttir

Spenna og dramatík í sigri SR á SA

Matthías Már Stefánsson, í miðjunni, jafnaði í 2-2 seint í annarri lotu og fagnar hér ásamt liðsfélögunum, þeim Atla Sveinssyni, Ormi Jónssyni, Bjarma Kristjánssyni og Andra Má Mikaelssyni. Bjarmi er að vísu að mestu á bakvið Andra Má. Mynd: Rakel Hinriksdóttir.

Karlalið SA og SR í íshokkí buðu upp á skemmtun, spennu og dramatík í Skautahöllinni á Akureyri í kvöld þegar liðin mættust í lokaleik Ofurhelgarinnar. Gestirnir fóru með sigur af hólmi, 2-3, en aðeins munaði sekúndubroti að heimamönnum tækist að jafna leikinn og knýja fram framlengingu. 

Það var vel mætt í Skautahöllina á Akureyri á þennan lokaleik Ofurhelgarinnar, um 350 manns. Önnur félög gætu ef til vill lært eitthvað af hokkídeild Skautafélagsins því á hokkíleikjum sannast að fólk mætir og stemningin er góð þó ekki sé boðið upp á kaldan af dælu eins og í mörgum öðrum íþróttagreinum og hjá mörgum félögum, á Akureyri og annars staðar, með eða án leyfis.

Hörkuleikur tveggja jafnra liða

Eins og ávallt þegar þessi lið mætast varð úr hörkuleikur, hraður og skemmtilegur, barátta og dramatík í boði. SR-ingar gáfu Fjölni engin grið í laugardagsleiknum, unnu hann 12-4 og endurheimtu toppsæti Toppdeildar karla. Þeir fengu því tæpan sólarhring í hvíld, en heimamenn í SA tæpa tvo sólarhringa eftir að hafa sigrað Fjölni á föstudagskvöldið.

Það voru engu að síður SR-ingar sem skoruðu fyrsta markið, en jafnt var eftir fyrstu lotuna. Undir lok fyrstu lotunnar misstu SA Víkingar Marek Vybostok út úr leiknum þegar hann fékk refsingu og svo viðbótarrefsingu vegna mótmæla og óíþróttamannslegrar framkomu við dómara leiksins.

SA Víkingar nutu ekki krafta Mareks Vybostok nema í fyrstu lotunni, en hann fékk útilokunardóm undir lok hennar fyrir framkomu við dómara. Mynd: Rakel Hinriksdóttir.

Áfram var barist í annarri lotu, en aðeins eitt mark sem leit dagsins ljós og SR-ingar með forystu fyrir síðustu lotuna, 2-3. SR náði aðeins þremur skotum á markið í lotunni, en eitt þeirra rataði alla leið og það er það sem skiptir máli þegar upp er staðið. Það væri kannski ekki rétt að segja að leikurinn hafi verið lokaður, en að minnsta kosti voru varnirnar öflugar og til dæmis náðu gestirnir aðeins þremur skotum á markið í annarri lotunni, sem og í þeirri þriðju. 

Sekúndubrot tryggði sigurinn

SA Víkingar reyndu ákaft að jafna leikinn, en inn vildi pökkurinn ekki. Tíminn rann þeim smátt og smátt úr greipum, en ekki vantaði þó trú á að þeir gætu jafnað og auðvitað gáfust þeir aldrei upp. Þegar 17,2 sekúndur voru eftir á hallarklukkunni fékk leikmaður SR refsingu. Þeir rauðu því einum fleiri og sóttu fast að marki SR.

Jóhann Már Leifsson átti síðan skot að marki þegar tæpar fimm sekúndur voru eftir og í mikilli þvögu framan við markið tókst Andra Má Mikaelssyni að koma pökknum í markið við mikinn fögnuð fjölmargra áhorfenda – og liðsfélaga auðvitað – en dómarinn gaf fljótt bendingu um að markið hafi komið of seint. Eflaust munaði sekúndubroti og áhugavert ef dómarar gætu skoðað upptökur eins og gert er í sumum boltaíþróttanna þegar vafi leikur á mikilvægum atriðum. En ákvörðun dómaranna stóð og SR-ingar fóru því með sigur af hólmi og hirtu öll þrjú stigin.

SA - SR 2-3 (2-2, 0-1, 0-0)

  • 0-1 - Alex Máni Sveinsson (01:59). Stoðsendingar: Styrmir Maack, Kári Arnarsson.
    Það voru ekki liðnar tvær mínútur þegar fyrsta markið leit dagsins ljós. Alex Máni Sveinsson náði þá forystunni fyrir gestina.
  • 1-1 - Atli Sveinsson (06:56). 
    Atli Sveinsson er mættur aftur á svellið eftir nokkurt hlé frá keppni. Hann jafnaði leikinn í 1-1 með nokkuð skondnu marki. SA Víkingar sóttu þá ákaft að marki SR, sem endaði með skoti frá Atla fyrir utan. Pökkurinn fór í skauta varnarmanns SR, sveif í boga í átt að markinu þar sem Bjarmi Kristjánsson og SR-ingurinn Daniel Otuoma reyndu að ná til hans, tókst ekki, en pökkurinn skoppaði framhjá Ævari Björnssyni í marki SR og í markið. Ævar gaf reyndar dómurunum mjög skýra bendingu um að markið væri ólöglegt, en það stoðaði ekki.
  • 1-2 - Hákon Magnússon (12:01). Stoðsending: Daniel Otuoma.
    Aftur náðu gestirnir forystunni stuttu eftir miðja fyrstu lotuna. Hákon Magnússon fékk þá pökkinn á miðjunni eftir slaka sendingu í liði SA, stórt gat í vörninni og Hákon kom sér auðveldlega að markinu og skoraði.
  • 2-2 - Matthías Már Stefánsson (17:57). Stoðsending: Bjarmi Kristjánsson.
    Matthías Már jafnaði í 2-2 þegar um tvær mínútur voru eftir af fyrstu lotunni. Matthías og Andri Már Mikaelsson unnu þá pökkinn af varnarmanni SR, Matthías sendi á Bjarma og í sameiningu léku þeir á markvörð SR og Matthías kláraði færið.
    - - -
  • 2-3 - Hákon Magnússon (36:24). Stoðsending: Kári Arnarsson.
    Það var langt liðið á aðra lotu þegar fimmta mark leiksins kom, eina markið í annarri lotu. SR-ingar voru einum fleiri eftir refsingu á leikmann SA. Hákon Magnússon skoraði þá sitt annað mark, fékk pökkinn með bakið í markið, sneri sér og skoraði. Skömmu áður höfðu SA Víkingar verið einum fleiri í tvær mínútur og sóttu þá ákaft að marki SR án þess að koma pökknum í netið.

SA

Mörk/stoðsendingar: Atli Sveinsson 1/0, Matthías Már Stefánsson 1/0, Bjarmi Kristjánsson 0/1.
Varin skot: Róbert Steingrímsson 13 af 16 (81,3%).
Refsingar: 24 mínútur.

SR

Mörk/stoðsendingar: Hákon Magnússon 2/0, Alex Máni Sveinsson 1/0, Kári Arnarsson 0/2, Styrmir Maack 0/1, Daniel Otuoma 0/1.
Varin skot: Ævar Björnsson 22 af 24 (91,7%).
Refsingar: 14 mínútur.

Fyrir leikinn var SR í toppsætinu með 20 stig, en SA með 19 stig í 2. sæti. Fjölnir er langt á eftir og löngu orðið ljóst hvaða lið munu mætast í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn, en fram undan auðvitað barátta um deildarmeistaratitilinn og heimaleikjaréttinn. Með sigrinum náðu Reykvíkingar því fjögurra stiga forystu á toppi deildarinnar, fóru í 23 stig, en SA áfram með 19.

Leikskýrslan

Staðan í deildinni