Fara í efni
Íþróttir

Reykvíkingar nældu í íshokkígullið – MYNDIR

Atli Valdimarsson, markvörður SR, varði tvívegis á undraverðan hátt frá Unnari Rúnarssyni á lokasekúndum leiksins; hér er annað atvikið. Eins gott fyrir markvörð í íshokkí að vera liðugur! Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Íslandsbikar karla í íshokkí var í gærkvöldi „lánaður“ til höfuðborgarinnar þegar Skautafélag Reykjavíkur sigraði Víkinga, lið Skautafélags Akureyrar, í fimmta og síðasta úrslitaleiknum um Íslandsmeistaratitilinn fyrir troðfullri skautahöll á Akureyri.

Að neðan má sjá nokkrar myndir Skapta Hallgrímssonar frá þessari stórskemmtilegu viðureign, með lýsingum Haraldar Ingólfssonar á mörkunum úr grein gærkvöldsins. Fleiri myndir eru í tengdu albúmi. 

 • 1-0 (08:16 mín.) – Hafþór Andri Sigrúnarson (stoðsending Orri Blöndal)
  Fyrsta markið kom leik þegar SR-ingar misstu pökkinn fremur klaufalega í sókninni og SA-Víkingar voru snöggir fram, komnir fjórir á móti einum og nýttu sér það af yfirvegun, komu sér í gott færi og Hafþór Andri Sigrúnarson skoraði eftir stoðsendingu frá Orra Blöndal. 

_ _ _

 • 1-1 (09:53) – Axel Snær Orongan (án stoðsendingar)
  Axel Orongan, einn Akureyringanna í liði SR, lét ekki á sig fá þótt heimamenn kæmust yfir og rétt um mínútu seinna lék hann listir sínar í kringum mark SA og eiginlega eins og varnarmenn SA byggjust ekki við skoti, en Axel fór í kringum markið og náði að lauma pökknum framhjá Jakobi í markinu.  

_ _ _

 • 2-1 (16:39) – Jóhann Már Leifsson (Andri Már Mikaelsson)
  SR-ingar fengu fjórar refsingar í fyrsta leikhlutanum og í eitt skiptið þegar þeir voru einum færri náðu SA-Víkingar að nýta sér það þegar Jóhann Már Leifsson fékk sendingu frá Andra Má Mikaelssyni og skoraði. Fremur einfalt mark, en auðvelt að segja það uppi í blaðamannastúku þegar ójafnt er í liðunum.  

_ _ _

 • 2-2 (19:56) – Axel Snær Orongan (Ólafur Björnsson)
  Aftur var það Axel Snær Orongan sem svaraði fyrir SR, aftur með óvæntu skoti, en núna af aðeins lengra færi. SR-ingar voru einum fleiri, en Axel var með varnarmann fyrir framan sig, skaut framhjá honum og virtist pökkurinn fara undir markmann SA – sá hann mögulega frekar seint.  

_ _ _

 • 2-3 (22:17) – Pétur Maack (Markús Ólafarson)
  Gestirnir náðu síðan forystunni snemma í öðrum leikhluta þegar þeir voru með pökkinn á eigin varnarsvæði, SA-Víkingar pressuðu og Markús Ólafarson brá á það ráð að senda pökkinn hátt í loft upp og fram svellið. Þar mistókst varnarmanni SA-Víkinga að koma höndinni fyrir pökkinn á fluginu þannig að Pétur Maack slapp einn inn fyrir og skoraði af stuttu færi.  

_ _ _

 • 3-3 (29:10) – Hafþór Andri Sigrúnarson (án stoðsendingar)
  Hafþór Andri Sigrúnarson skoraði sitt annað mark um miðjan annan leikhluta og jafnaði leikinn í 3-3. Hann var þá í baráttu við tvo SR-inga á eigin varnarsvæði, vann pökkinn og lék á einn í viðbót, var kominn einn í sóknina og lét bara vaða á markið. Engin stoðsending, þetta mark var algjörlega eign Hafþórs Andra.  

_ _ _

 • 3-4 (47:07) – Kári Arnarsson (Sölvi Atlason)
  SR náði forystunni þegar tæpar 13 mínútur voru eftir af leiknum og verður að segjast að það var heldur klaufalegt hjá heimamönnum. Bæði lið voru með mann í refsiboxinu og heimamenn í sókn, töpuðu pökknum, SR-ingar fara í sókn, skot að marki sem varnarmaður ver, en pökkurinn féll fyrir Kára sem náði að skora úr þröngu færi. Hann fagnar hér fremstur ásamt Axel Snæ Orongan.