Fara í efni
Íþróttir

Raunhæft að komast á Ólympíuleikana

Akureyrsku Íslandsmeistararnir. Frá vinstri: Freydís Jóna Jing Bergsveinsdóttir, Júlía Rós Viðarsdóttir og Aldís Kara Bergsdóttir.

Aldís Kara Bergsdóttir úr Skautafélagi Akureyrar bætti stigamet Íslendings í fullorðinsflokki í listhlaupi á skautum, á Reykjavíkurleikunum um helgina. Aldís Kara, sem nýlega var kjörin íþróttakona ársins á Akureyri fyrir síðasta ár, varð einnig Íslandsmeistari um helgina því leikarnir voru jafnframt Íslandsmót fyrir 2020, sem var frestað í haust vegna kórónuveirufaraldursins.

Aldís Kara er aðeins 17 ára, verður 18 ára í mars. Hún hefur sagt skilið við unglingaflokk, svokallaðan Junior flokk, þar sem hún setti mörg Íslandsmet á undanförnum árum og varð fyrsti íslenski skautarinn sem vann sér inn keppnisrétt á heimsmeistaramót unglinga, auk þess að ná lengra en Íslendingur hafði áður gert á Norðurlandamóti. Hún var eini keppandi í fullorðinsflokki um helgina, svo Íslandsmeistaratitilinn var öruggur, en það sem skipti mestu máli var hve vel hún skautaði og að hún fékk fleiri stig en íslensk stúlka hafði áður fengið.

„Aldís Kara mætti full eldmóðs í dag með þrefalt Salchow í samsetningu, tvöföldum Axel og þreföldu Toeloop og skilaði nýju Íslandsmeti í stuttu prógrami í þessum flokki með 40.93 stig, fyrra metið átti Júlía Grétarsdóttir frá árinu 2016,“ sagði á heimasíðu Skautasambandsins eftir fyrri keppnisdaginn. 

Glæsileg frammistaða

Að lokinni keppni seinni daginn, var aftur fjallað um Aldísi Köru á heimasíðu Skautasambandsins: 

„Töluverð eftirvænting var eftir að sjá hana spreyta sig í Senior flokki eftir tvö velgengnisár í Junior flokki. Aldís Kara er afar sterkur skautari og snörp og hóf leikinn með þreföldu Salchow í þriggja stökka seríu með tveimur tvöföldum stökkum, strax á eftir tvöföldum Axel og síðan þreföldu Toeloop í samsetningu með tvöföldu stökki. Seinna bætti hún um betur og lagði annað þrefalt Salchow. Stigin urðu 82.51 og í heildina 123.44 og bætti bæði Íslandsmetið í frjálsu prógrami sem og heildarstigin en fyrri met átti Margrét Sól Torfadóttir frá árinu 2018. Allt gekk upp hjá Aldísi í dag og eftir glæsilega frammistöðu í Senior hér verður gaman að fylgjast með henni, í vonandi náinni framtíð, þegar hún fer að reyna við lágmörk inn á stórmót erlendis.“

Gæti orðið fyrsti íslenski skautarinn á ÓL

Það er einmitt á stefnuskránni hjá Aldísi Köru, eftir erfitt ár í fyrra, þar sem lítið var hægt að æfa um tíma og fátt um mót: „Við getum æft á fullu núna og framundan er að fara að keppa í útlöndum, ef Covid leyfir, til að reyna að ná lágmörkum fyrir Evrópumeistaramót og heimsmeistaramót, og svo auðvitað á Ólympíuleikana 2022. Ég varð að játa að það er draumurinn minn og hefur verið lengi; ég yrði þá fyrsti íslenski skautarinn til þess að komast á Ólympíuleikana,“ sagði hún í samtali við Akureyri.net.

Einungis er hægt að ná sér í stig, til að komast á EM, HM og ÓL, á alþjóðlegum mótum erlendis. „Ég þarf að bæta mig til þess að ná á Ólympíuleikana en það munar samt ekkert mjög miklu. Ég á möguleika á að komast á leikana, það er alls ekki óraunhæft.“

Mjög góður þjálfari

Þær Aldís Kara og Ísold Fönn Vilhjálmsdóttir, einnig úr Skautafélagi Akureyrar, sem nú æfir í Sviss og er þremur árum yngri en Aldís, eru einu Íslendingarnir sem framkvæma þrefölt stökk. Ísold Fönn er enn í unglingaflokki en varð í fyrra fyrsti íslenski skautarinn til að lenda bæði þreföldu Lutzi og var með fyrstu samsetninguna með tveimur þreföldum stökkum. „Ég byrjaði að prófa þetta 11 eða 12 ára og nú erum við með góðan þjálfara sem hjálpar okkur rosalega mikið. Við erum líka mikið færri hér en í Reykjavík þannig að hver skautari fær meiri athygli,“ segir Alda Kara, spurð hvers vegna hún hefði náð þessum áfanga - þreföldu stökki. Þjálfarinn sem hún nefnir er tékknesk, heitir Darja Zajchenko og hefur starfað á Akureyri í tvö og hálft ár að sögn Öldu.

Freydís og Júlía sigruðu líka

Tvær aðrar stúlkur frá Akureyri sigruðu á Reykjavíkurleikunum og urðu þar með einnig Íslandsmeistarar: Freydís Jóna Jing Bergsveinsdóttir varð hlutskörpust í Advanced Novice flokki, þeim yngsta þar sem gefin eru stig fyrir frammistöðu, og Júlía Rós Viðarsdóttir varð meistari í næsta aldursflokki fyrir ofan, Junior flokki. Í Advanced Novice flokki varð Sædís Heba Guðmundsdóttir, einnig úr Skautafélagi Akureyrar, í öðru sæti.

Nánari umfjöllun er á heimasíðu Skautasambands Íslands. Smellið hér til að lesa um fyrri keppnisdaginn og hér um þann seinni.