Fara í efni
Íþróttir

Aldís Kara leggur listskautana á hilluna

Aldís Kara Bergsdóttir hefur verið kjörin íþróttakona Akureyrar síðustu þrjú ár. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Aldís Kara Bergsdóttir, besti listskautari Íslands og íþróttakona Akureyrar síðustu þrjú ár, hefur ákveðið að leggja skautana á hilluna. Hún tilkynnti þetta á Facebook í kvöld. Aldís Kara, sem er aðeins 19 ára, skipti í haust úr Skautafélagi Akureyrar í Fjölni í Reykjavík en lætur nú gott heita.

„Listskautar hafa verið allt mitt líf síðan ég steig á ísinn í fyrsta skiptið og nú eftir 15 ára feril hef ég tekið þá ákvörðun að leggja skautana á hilluna,“ skrifar Aldís Kara.

„Ég er svo ótrúlega stolt af öllu sem ég hef áorkað, að ná þeim markmiðum að vera fyrsti íslenski skautarinn til að ná lágmörkum inn á Heimsmeistaramót unglinga og Evrópumeistaramót fullorðna og að vera valin íþróttakona Akureyrar síðast liðin 3 ár. Þetta eru draumar sem litlu Aldísi hefði aldrei dottið í hug að hún myndi ná.“

Aldís Kara þakkar öllum fyrir ómetanlegan stuðning í gegnum árin. Sérstaklega þakkar hún þjálfurunum Iveta Ivanova og Darja Zajcenko fyrir að hafa haft mikla trú á sér: „án þeirra hefði ég aldrei komist svona langt og er ég ótrúlega þakklát fyrir þær.

Er einnig svo þakklát fyrir mömmu, Hjalta, pabba og Guðrúnu fyrir að vera mínir helstu stuðningsmenn gegnum árin

Að lokum langar mig að þakka Skautasambandinu, Skautafélagi Akureyrar, stórfjölskyldunni minni og vinum fyrir allan stuðninginn. Ég hefði ekki getað þetta án ykkar allra.“

Aldís Kara Bergsdóttir og Darja Zajcenko, sem þjálfaði hana lengi. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.