Fara í efni
Íþróttir

Methafinn loksins á íslenskri braut

Baldvin Þór Magnússon á Þórsvellinum í morgun. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.
Baldvin Þór Magnússon á Þórsvellinum í morgun. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Baldvin Þór Magnússon, Akureyringurinn ungi sem setti þrjú Íslandsmet í hlaupum vestur í Bandaríkjunum í vetur, tók nokkra létta spretti á Þórsvellinum fyrir hádegi, en þar keppir hann í fyrsta skipti á braut hérlendis, þegar Meistaramót Íslands fer fram um helgina.

Hann tekur þátt í 1500 metra hlaupi um miðjan dag á morgun. Baldvin flutti barnungur með fjölskyldu sinni til Hull á Englandi og bjó þar lengi vel, en stundar nú nám vestan hafs og keppir fyrir Eastern Michigan háskólann.

Baldvin sló í vetur m.a. 39 ára gamalt Íslandsmet Jóns Diðrikssonar í 1500 metra hlaupi, þegar hann fór vegalengdina á 3:40,74 mín.

„Nei, það verður ekki sett met hér á morgun,“ sagði Baldvin og hló í samtali við blaðamann. Enda þótti honum veðrið ekki mjög Akureyrarlegt! Norðanátt er í firðinum og á giska sjö stiga hiti. Spáin fyrir morgundaginn er skárri, hitinn að vísu ekki mikið hærri en sólin á að skína.

Baldvin, sem keppir fyrir Ungmennafélag Akureyrar, segist ánægður með aðstæður að öðru leyti. „Brautin er góð, hún er hörð en mjög góð keppnisbraut.“

1500 m hlaupið er á dagskrá klukkan 14.25 á morgun.

Hver er Baldvin? Smellið hér til að fræðast um hann.