Fara í efni
Íþróttir

Rannveig og Arnar Íslandsmeistarar

Elma Eysteinsdóttir færði Rannveigu Oddsdóttur blómvönd þegar hún kom í mark sem Íslandsmeistari í hálfmaraþoni – en tilefni blómanna var að Rannveig tók nú þátt í Akureyrarhlaupinu í 25. skipti. Myndir: Ármann Hinrik

Rannveig Oddsdóttir úr Ungmennafélagi Akureyrar (UFA) og Arnar Pétursson úr Breiðabliki í Kópavogi urðu Íslandsmeistarar í hálfmaraþoni í gærkvöldi. Þá fór hið árlega Akureyrarhlaup UFA fram og hálfmaraþonið var Íslandsmeistaramót í vegalengdinni.

„Það var gríðargóð stemning í Akureyrarhlaupi Mizuono og atNorth sem fór fram í gærkvöldi í blíðskaparveðri. 240 hlauparar mættu til leiks og var gaman að sjá fjölbreytnina í hópnum,“ segir á vef UFA í dag. „Margir af okkar sterkustu götuhlaupurum voru mættir til leiks, en líka nýliðar í íþróttinni, börn í fylgd með foreldrum og fullbúnir lögreglu- og slökkviliðsmenn. Yngstu þátttakendurnir voru 12 ára og sá elsti 78 ára og vill svo skemmtilega til að þeir hlupu 5 km á svipuðum tíma eða í kringum 30 mínútur.“

Arnar Pétursson varð Íslandsmeistari í hálfmaraþoni.

Arnar Pétursson hljóp hið hálfa maraþon á 1:09:33 – 1 klukkustund, 9 mínútum og 33 sekúndum. Rannveig Oddsdóttir hljóp vegalengdina á 1:25:34 sem er jafnframt aldursflokkamet í flokki 50-54 ára kvenna. Rannveig er enginn nýgræðingur í greininni og var að taka þátt í sínu 25. Akureyrarhlaupi, eins og fram kom í spjalli við hana á Akureyri.net í gær:

Aðal markmið Rannveigar í gær var, eins og hún sagði frá í viðtalinu, að hlaupa hálfmaraþonið á innan við einum og hálfum klukkutíma. Það tókst og vel það. 

Í 10 km hlaupi sigruðu Íris Anna Skúladóttir (37:06) og Freyr Karlsson (34:32).

Í 5 km hlaupi var Anna Berglind Pálmadóttir fyrst kvenna í mark á 18:18 og Agnar Darri Sverrisson á 17:10

Öll úrslit úr hlaupinu er hægt að sjá á timataka.is

Rannveig Oddsdóttir varð Íslandsmeistari í hálfmaraþoni og setti jafnframt aldursflokkamet í flokki 50-54 ára kvenna.