Fara í efni
Íþróttir

Meistaramótið í frjálsum á Þórsvelli

Vigdís Jónsdóttir – Baldvin Þór Magnússon – Guðni Valur Guðnason – Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.

Meistaramót Íslands í frjálsíþróttum, hið 95. í röðinni, verður á Þórsvellinum um helgina. Veðrið verður því miður ekki upp á það besta, en ætti þó að geta verið þolanlegt í dag því hiti gæti farið upp undir 10 stig og sólin á að skína skært.

Nokkrar mjög áhugaverðar greinar verða í dag – Akureyri.net mælir sérstaklega með þessum:

11.00 – Kringlukast karla – Guðni Valur Guðnason úr ÍR reynir við Ólympíulágmarkið, sem er 66 metrar sléttir. Hann hefur kastað lengst 64,85 m í ár en Íslandsmet Guðna er 69,35 m.

12.30 – Sleggjukast karla – Hilmar Örn Jónsson, Íslandsmethafi úr FH, freistar þess að ná lágmarki fyrir Ólympíuleikana í sumar. Lágmarkið er 77,50 m, hann hefur kastað lengst 74,57 m í sumar en Íslandsmet Hilmars er 77,10 m.

13.15 – Sleggjukast kvenna – Elísabet Rut Rúnarsdóttir úr ÍR bætti Íslandsmetið í byrjun apríl þegar hún kastaði 64,39 metra. FH-ingurinn Vigdís Jónsdóttir, sem á best 63,43 m í ár, varð Íslandsmeistari í fyrra og gera má ráð fyrir skemmilegri baráttu þeirra tveggja í dag.

14.35 – 1500 metra hlaup karla – Akureyringurinn Baldvin Þór Magnússon, sem búið hefur erlendis frá fimm ára aldri, tekur þátt fyrir hönd Ungmannafélags Akureyrar. Það verður fyrsta keppni hans á braut á Íslandi. Baldvin bætti Íslandsmetið í 1500 metra hlaupi fyrr á árin á háskólamóti í Bandaríkjunum en met Jóns Diðrikssonar hafði staðið í hvorki meira né minna en 39 ár.

14.50 – Úrslit í 200 metra hlaupi karla þar sem Kolbeinn Höður Gunnarsson, Akureyringur sem keppir með FH, verður að teljast sigurstranglegastur. Hann sigraði í fyrra, sem og í 100 metra hlaupinu.

14.55 – Úrslit í 200 metra hlaupa kvenna. Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir, ÍR, heldur í vonina um að komast á Ólympíuleikana. Besti tími hennar er 23,45 sek.

15.40 – Spjótkast karla – Dagbjartur Daði Jónsson, ÍR, varð annar á lokamóti bandarísku háskólakeppninnar fyrir nokkrum dögum, kastaði spjótinu 78,66 metra en Sindri Hrafn Guðmundsson, FH, sem varð fimmti á mótinu, hefur kastað lengst Íslendinga í ár, 79,83 m. Þeir verða báðir með í dag.