Fara í efni
Íþróttir

KA ekki lengur nyrsti landsmeistarinn

Úrklippa úr íþróttablaði Morgunblaðsins eftir að KA varð Íslandsmeistari 1989.

Bodø/Glimt varð í gær norskur meistari í knattspyrnu í fyrsta skipti. Yfirburðir félagsins hafa verið miklir á leiktíðinni og titillinn er í höfn þrátt fyrir að enn séu fimm umferðir eftir af deildarkeppninni.

Félagið vann Strømsgodset 2:1 í gærkvöldi en reikna má með að það sem vekji mesta athygli við meistaratignina, að minnsta kosti á Akureyri, sé að með sigrinum velta leikmenn félagsins KA-mönnum af stalli sem þeir hafa verið á síðan haustið 1989.

Það var tölfræðisíðan Gracenote Live sem vakti athygli á þessu á Twitter í gærkvöldi: Bodö/Glimt er nú nyrsta lið í heimi sem orðið hefur landsmeistari í fótbolta. KA varð Íslandsmeistari í fyrsta og eina skipti 1989 - nyrsta íþróttafélag heims til þess. Borgin Bodø er rétt norðan heimskautsbaugsins en Akureyri rétt sunnan hans. Eftir að Grímsey sameinaðist Akureyri liggur baugurinn reyndar í gegnum bæinn en það dugar ekki til; Bodø er samt örlítið norðar.