Fara í efni
Íþróttir

Hver er hinn ungi lærisveinn Björgvins?

GAMLA ÍÞRÓTTAMYNDIN – 91

Björgvin Þorsteinsson er sigursælasti kylfingur sem Akureyringar hafa eignast. Hann varð sex sinnum Íslandsmeistari í golfi á áttunda áratug aldarinnar sem leið, þar af fimm ár í röð – 1973 til 1977. Íslandsmótið í golfi stendur nú sem hæst á Hvaleyrarvelli og því tilvalið að gamla íþróttamyndin í dag sé af Björgvini heitnum.

Myndin birtist í Akureyrarblaðinu Íslendingi 8. júlí árið 1976. Þarna leiðbeinir hann ungum kylfingi á námskeiði sem Golfklúbbur Akureyrar stóð fyrir á Jaðarsvelli og spurning dagsins er: Þekkir einhver lærisveininn unga? Gaman væri að fá ábendingar á netfangið skapti@akureyri.net.

  • Sumarið 1976 voru um 200 meðlimir í Golfklúbbi Akureyrar, að því er fram kemur í spjalli Íslendings við Baldvin Bjarnason sem þá var vallarvörður að Jaðri. 
  • Áhugi á golfi hefur aukist gríðarlega hin síðari ár, á Akureyri sem annars staðar, og til gamans má geta þess að nú eru meðlimir Golfklúbbs Akureyrar hvorki fleiri né færri en 1060 og hefur fjölgað um 130 frá því á síðasta ári!