Fara í efni
Íþróttir

„Frábær stemning – mikill meðbyr“

Bjarki Ármann Oddsson, þjálfari Þórs. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Þórsarar unnu fimmta leikinn í röð í Domino‘s deildinni í körfubolta, þegar þeir sóttu KR-inga heim í gærkvöldi. Eftir afleita byrjun á leiktíðinni eru þeir núna í 5.-7. sæti og stefna hraðbyri á úrslitakeppnina. Athygli vekur að þótt einn mikilvægasti maður liðsins, spænski miðherjinn Ivan Alcolado, sé veikur og spili ekki með, heldur liðið sínu striki. Þá er Ingvi Guðmundsson, sem kom frá Haukum á dögunum, að jafna sig eftir höfuðhögg og hefur ekki verið með í síðustu þremur leikjum. Að ógleymdum fyrirliðanum, Júlíusi Orra Ágústssyni, sem lítið hefur verið með í vetur vegna meiðsla.

Bjarki Ármann Oddsson, þjálfari Þórs, var að vonum glaður í bragði – en jarðbundinn – þegar Akureyri.net ræddi við hann eftir sigurinn. 

Hvað sagðirðu eiginlega við þína menn þegar staðan var orðin 16:0 fyrir KR?

„Ég sagði við strákana í leikhléinu, sem ég tók þegar við vorum 16:0 undir, að halda bara áfram. Við myndum vinna þennan leik.“

Miðherjinn stóri og sterki, Ivan Alcolado, lék aðeins fyrstu sex mínúturnar í sigrinum á ÍR á föstudagskvöldið og var ekki með í gær, vegna veikinda. Þurftirðu að leggja áherslu á aðra hluti fyrst hann var ekki með?

„Ég lagði leikinn upp eins og aðra leiki; við reyndum að loka á styrkleika andstæðinganna og reyndum að leggja áherslu á að nýta okkar styrkleika. Við höfum mikið notað Ivan nálægt körfunni og nú var sá möguleiki ekki í boði svo aðrir þurftu einfaldlega að stíga upp. Mest hafði ég áhyggjur af fráköstunum þar sem Ivan tekur flest fráköst allra í deildinni en strákarnir stigu upp og við enduðum á að taka fleiri fráköst en KR eins og lagt var upp með.“

Mér finnst aðdáunarvert að sjá hve liðsheildin er góð. Sú er ekki alltaf raunin þegar góðir leikmenn koma saman.

„Liðsheildin okkar er mjög sterk. Leikmennirnir vega hvern annan virkilega vel upp og hlutverkin og markmiðin innan liðsins eru skýr. Stemningin er frábær í liðinu og við finnum fyrir miklum meðbyr.“

Hvernig gengur að halda mönnum niðri á jörðinni þegar gengið er svona gott – sigur leik eftir leik?

„Mottóið okkar er never too high, never too low. Þótt við töpum einhverjum leikjum þýðir ekkert að leggjast í jörðina og gefast upp og þó við vinnum einhverja leika þá megum við ekki missa okkur í gleðinni. Við fögnum hverjum sigri en um leið og við erum komnir á næstu æfingu erum við farnir að hugsa um næsta leik.“

Það var væntanlega mikilvægt að fá Kolbein Fannar Gíslason aftur í hópinn eftir meiðsli.

„Það var frábært að endurheimta Kolla aftur eftir meiðsli. Hann stóð sig stórkostlega gegn KR; þær mínútur sem Kolli var inni á unnum við 24 stiga mun.“

Hvað er að hrjá Ivan? Verður hann tilbúinn í leikinn gegn Tindastóli?

„Ivan er með einhverja iðrakveisu og verður vonandi orðinn góður á fimmtudaginn.“

Hvernig er staðan á Ingva, sem ekki hefur tekið þátt í síðustu þremur leikjum?

„Ingvi er enn að jafna sig eftir heilahristing sem hann fékk gegn Stjörnunni. Það er erfitt að tímasetja endurkomu Ingva en slíkir heilahristingar eru grafalvarlegir og mikilvægt að fara ekki of snemma af stað.“

Er einhver von til þess að Júlíus Orri verði meira með í vetur?

„Júlíus fékk grænt ljós að byrja að æfa létt í vikunni. Það er of snemmt að segja til um hvað verður en vonandi sjáum við hann í búningi í vetur. Það yrði svakalegur liðsstyrkur fyrir okkur.“

Smelltu hér til að lesa um leikinn í gærkvöldi.

Smelltu hér til að skoða alla tölfræði úr leiknum.

  • Næsti leikur Þórs verður gegn Tindastóli á Sauðárkróki á fimmtudagskvöldið.

Kolbeinn Fannar Gíslason, fyrirliði Þórsara, reynir að komast í veg fyrir skot Tyler Sabin, besta leikmanns KR. Ljósmynd: Sara Skaptadóttir.

Þórsarar þakka stuðningsmönnum sínum fyrir komuna í DHL-höll KR-inga í gærkvöldi. Ljósmynd: Sara Skaptadóttir.