Fara í efni
Íþróttir

Brautarmet og tveir Íslandstitlar UFA

Baldvin Þór Magnússon og Sigþóra Brynja Kristjánsdóttir, Íslandsmeistarar í hálfmaraþoni, eftir hlaupið í kvöld. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Baldvin Þór Magnússon og Sigþóra Brynja Kristjánsdóttir, bæði úr Ungmennafélagi Akureyrar, urðu Íslandsmeistarar í hálfu maraþoni í kvöld þegar Akureyrarhlaup UFA fór fram í blíðskaparveðri. Baldvin gerði sér lítið fyrir og bætti brautarmetið um rúma mínútu en Sigþóra jafnaði brautarmetið í kvennaflokki.

Baldvin Þór hljóp hálft maraþon – 21,1 km – á einni klukkustund og tæpum níu mínútum: 1:08,48 klst. Arnar Pétursson úr Breiðabliki, sem átti brautarmetið, varð annar í kvöld. Hann kom í mark 28 sekúndum á eftir Baldvini. Arnar setti gamla metið árið 2019 þegar hann hljóp vegalengdina á 1:09,58 klst.

Sigþóra Brynja hljóp í kvöld á 1:20,43 klst. og sigraði með yfirburðum; kom í mark tæplega fimm mínútum á undan næsta keppanda.

Keppt var í þremur vegalengdum í Akureyrarhlaupinu, 5 km, 10 km og hálfmaraþoni, og í ýmsum aldursflokkum.

Smellið hér til að sjá tíma allra keppenda.