Fara í efni
Íþróttir

Baldvin bætti 39 ára Íslandsmet í 1500 m

Baldvin bætti 39 ára Íslandsmet í 1500 m

Baldvin Þór Magnússon úr Ungmennafélagi Akureyrar setti enn eitt Íslandsmetið í gærkvöldi – hljóp 1500 metra á 3:40,74 mínútum og bætti þar með met Jóns Diðrikssonar, sem staðið hafði í 39 ár!

Jón hljóp 3:41,65 mín. árið 1982. Tími Baldvins er því tæpri sekúndu betri en gamla Íslandsmetið. Metið í gær setti hann á Rick Erdmann Twilight mótinu í Richmond í Kentucky.

Þetta er þriðja Íslandsmetið sem Baldvin bætir á nokkrum vikum og annað metið utanhúss. Um miðjan mars setti hann met í 3000 metra hlaup innanhúss og í lok mánaðarins stórbætti hann Íslandsmetið í 5000 m hlaupi á fyrsta utanhússmóti ársins; hljóp á 13 mínútum, 45,66 sekúndum – bætti tveggja ára met Hlyns Andréssonar um hvorki meira né minna en 12 sekúndur!

Baldvin Þór fæddist á Akureyri, sonur hjónanna Katrínar Snædal Húnsdóttur og Magnúsar Þórs Magnússonar, en fjölskyldan flutti til Hull þegar Baldvin var fimm ára og þar hafa foreldrar hans búið síðan. Hann stundar nám við Eastern Michigan háskólans í Bandaríkjunum.

Eftir að Baldvin bætti innanhússmetið í 3000 m sagðist hann, í samtali við Morgunblaðið, leggja aðaláherslu að 5.000 metrum á utanhússtímabilinu.  

„Utanhúss hleyp ég líka 1.500 metra,“ sagði Baldvin í Morgunblaðinu. Hleypur líka 1500 m og „slátraði“ nærri fjögurra áratuga Íslandsmeti í fyrstu tilraun! Sannarlega stórmerkilegur árangur.

Smelltu hér til að lesa um Íslandsmet Baldvins í 3000 metra hlaupi innanhúss

Smelltu hér til að lesa um Íslandsmet Baldvins í 5000 metra hlaupi utanhúss 

Myndarlega var sagt frá Íslandsmet Baldvins á heimsíðu Eastern Michigan háskólans í gærkvöldi.