Fara í efni
Íþróttir

Aldís og Viktor íþróttafólk ársins

Íþróttafólk ársins 2020! Skautarinn Aldís Kara Bergsdóttir og Viktor Samúelsson kraftlyftingamaður. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Kraftlyftingamaðurinn Viktor Samúelsson úr KFA er íþróttakarl Akureyrar og skautakonan Aldís Kara Bergsdóttir úr SA er íþróttakona Akureyrar 2020. Kjöri þeirra var lýst í hófi í menningarhúsinu Hofi undir kvöld.

Þetta er annað árið í röð sem Aldís Kara er kjörin íþróttakona ársins á Akureyri, og hún hefur einnig verið valin skautakona ársins hjá Skautasambandi Íslands síðustu tvö ár. Þar með hefur hún fest sig í sessi sem besti skautari landsins.

  • Á árinu keppti Aldís Kara á Reykjavík International Games (RIG2020) þar sem hún fékk 113.54 stig og náði lágmörkum á heimsmeistaramót unglinga í stuttu prógrami, þá í annað sinn á keppnistímabilinu.
  • Á Norðurlandamótinu í Stavanger í Noregi fékk Aldís Kara 115.39 stig, fleiri en íslenskur skautari hafði nokkru sinni fengið á Norðurlandamóti. Á mótinu náði Aldís Kara lágmarks stigum fyrir heimsmeistaramót unglinga í frjálsu prógrammi og varð þar af leiðandi fyrsti skautari Íslands sem nær þeim árangri.
  • Aldís Kara keppti á heimsmeistaramóti unglinga í Tallin í Eistlandi. Þar stóð hún sig með prýði og endaði í 35. sæti af 48 keppendum.

Viktor Samúelsson er nú íþróttakarl ársins á Akureyri þriðja árið í röð og hefur þar með verið kjörinn fimm sinnum alls, næst oftast allra. Aðeins Vernharð Þorleifssyni júdókappa hefur hlotnast heiðurinn oftar – hann var kjörinn íþróttamaður ársins á Akureyri sjö sinnum. Rétt er að taka fram að Viktor var einu sinni kjörinn íþróttamaður Akureyrar, 2015, en fjórum sinnum íþróttakarl ársins í bænum eftir að farið var að kjósa bæði karl og konu.

  • Á síðasta ári varð Viktor í fyrsta sæti á Reykjavík International Games í klassískum kraftlyftingum.
  • Á Íslandsmótinu í réttstöðulyftu sló Viktor eina Íslandsmetið sem hann átti ekki sjálfur, í -120 kg flokki, þegar hann lyfti 338kg. Í stigakeppni mótsins lenti Viktor lenti í öðru sæti eftir harða baráttu við ríkjandi heimsmeistara í réttstöðulyftu, Júlían J.K. Jóhannsson.
  • Viktor keppti í -105 kg flokki á Íslandsmeistaramótinu í klassískum kraftlyftingum þar sem hann tvíbætti Íslandsmetin í bekkpressu og réttstöðulyftu og þríbætti Íslandsmetin í samanlögðu. Viktor er stigahæsti klassíski kraftlyftingamaður ársins 2020 hjá Kraftlyftingasambandi Íslands.

Í öðru sæti í kjörinu að þessu sinni urðu Miguel Mateo Castrillo blakari úr KA og Hafdís Sigurðardóttir frjálsíþróttakona úr UFA, og í þriðja sætinu Þorbergur Ingi Jónsson utanvegahlaupari úr UFA og Gígja Guðnadóttir blakari úr KA.

Kjör íþróttafólks Akureyrar fer þannig fram að 14 aðildarfélög ÍBA tilnefndu alls 38 íþróttamenn úr sínum röðum, 17 íþróttakonur og 21 íþróttakarl. Úr þeim tilnefningum var svo kosið á milli 10 karla og 10 kvenna sem stjórn Afrekssjóðs hafði stillt upp.

Á athöfninni veitti frístundaráð Akureyrarbæjar viðurkenningar til 8 aðildarfélaga ÍBA vegna 140 Íslandsmeistara á síðasta ári og Afrekssjóður veitti 10 afreksefnum styrki. Samtals hlutu 20 íþróttamenn afreksstyrki fyrir samtals rúmar 5 milljónir.