Fara í efni
Íþróttir

Aldís Kara úr SA skautakona ársins

Aldís Kara Bergsdóttir í byrjun árs, þegar hún var kjörin íþróttakona Akureyrar 2019.

Aldís Kara Bergsdóttir úr Skautafélagi Akureyrar hefur verið valin skautakona ársins á Íslandi. Hvert sérsamband velur besta fólkið í viðkomandi grein og Aldís Kara er þriðji Akureyringurinn sem hlotnast þessi heiður í ár; fyrir helgi var tilkynnt að Sunna Björgvinsdóttir er íshokkíkona ársins og Jóhann Már Leifsson íshokkíkarl ársins.

Aldís Kara, sem er 17 ára og æfir undir leiðsögn Darja Zajcenko hjá SA, var einnig valin skautakona ársins 2019.

Í umsögn um hana frá stjórn Skautasambands Íslands (SSÍ) segir að Aldís Kara hafi skarað fram úr meðal jafningja og þar beri helst að nefna þátttöku hennar á heimsmeistaramóti unglinga í Tallin í mars. Þá varð hún fyrst Íslendinga til þess að vinna sér inn keppnisrétt og keppa á heimsmeistaramóti í listhlaupi einstaklinga.

Eini möguleikinn til að komast á HM er að vinna sér inn stig á viðurkenndum mótum sem skráð eru á keppnislista Alþjóða skautasambandsins (ISU), alþjóðlegum mótum þar sem strangar kröfur gilda um samsetningu dómarahópsins og lágmarksfjölda skráðra keppenda á mótinu. Eina mótið á Íslandi sem gildir til stiga er Reykjavík International Games (RIG), ef lágmarks fjölda keppenda er náð. Íslendingar verða því að fara utan til keppni í þeirri von að vinna sér inn nægilega mörg stig til að komast á HM.

Á RIG snemma árs náði Aldís Kara lágmarki í stuttum æfingum fyrir HM unglinga í annað skipti á árinu og á næsta móti, Norðurlandamóti sem fram fór í Stavanger í Noregi, náði hún lágmarks fjölda stiga í frjálsum æfingum fyrir HM, og varð með fyrsti skautari Íslands til að komast inn á mótið. Á Norðurlandamótinu fékk Aldís Kara fleiri stig en nokkur íslenskur skautari hafði áður fengið á þeim vettvangi. 

Aldís Kara varð í 35. sæti af 48 keppendum á HM í Eistlandi í mars. „Þetta var frábær byrjun hjá Aldísi Köru á heimsmeistaramóti og gríðarlega stórt skref í íslenskri skautasögu,“ segir stjórn Skautasambandsins í tilkynningu um valið á skautakonu ársins í gær.