Fara í efni
Íþróttir

35 ár síðan KA varð Íslandsmeistari

GAMLA ÍÞRÓTTAMYNDIN – XLIV

Í dag, 16. september, eru 35 ár síðan KA-menn urðu Íslandsmeistarar í knattspyrnu sællar minningar. Það er eini Íslandsmeistaratitill Akureyringa í karlaflokki í knattspyrnu til þessa.

Akureyri.net hefur birt gamla íþróttamynd á hverjum laugardegi síðan í nóvember á síðasta ári lesendum til fróðleiks og skemmtunar, en ákveðið var að bíða með 44. myndina og birta hana frekar nú í tilefni dagsins.

KA tryggði sér meistaratitilinn með 2:0 sigri á liði Keflvíkinga á útivelli laugardaginn 16. september 1989.

Spennan var gríðarleg í síðustu umferðinni. Áður en flautað var til leiks var FH efst í deildinni með 32 stig, KA var með 31, KR og Fram 29.

  • Flestir töldu lið FH sigurstranglegast fyrir lokaumferðina því það fékk botnlið Fylkis í heimsókn.
  • FH-ingar virtust með pálmann í höndunum; þeir náðu forystu strax á 3. mínútu en náðu ekki að fylgja góðri byrjun eftir og Fylkir vann 2:1. Árbæingar jöfnuðu eftir stundarfjórðung og sigurmark Fylkis kom á 80. mínútu.

Íslandsmeistarar KA 1989 eftir síðasta leikinn í Keflavík, laugardaginn 16. september.

Aftari röð frá vinstri: Halldór Kristinsson, Anthony Karl Gregory, Jón Kristjánsson, Steingrímur Birgisson, Erlingur Kristjánsson og Jón Grétar Jónsson – sem halda í sameiningu á Guðjóni Þórðarsyni þjálfara – Stefán Ólafsson, Bjarni Jónsson, Örn Viðar Arnarson, Ægir Dagsson, Jónas Þór Guðmundsson, Stefán Gunnlaugsson formaður knattspyrnudeildar KA og Sigmundur Þórisson formaður félagsins.

Fremri röð frá vinstri: Árni Þór Freysteinsson, Árni Hermannsson, Halldór Halldórsson, Haukur Bragason, Arnar Bjarnason, Gauti Laxdal og Þorvaldur Örlygsson. Tveir Íslandsmeistaranna eru ekki á myndinni, Arnar Freyr Jónsson og Ormarr Örlygsson.

  • KA náði forystu í Keflavík þegar 14 mínútur voru liðnar þegar Örn Viðar Arnarson skoraði.
  • Jón Kristjánsson, bróðir Erlings fyrirliða – betur þekktur sem handboltakappi – gulltryggði sigur KA og þar með Íslandsmeistaratitilinn með seinna markinu á 87. mínútu.
  • 1989 var magnað íþróttaár hjá Jóni Kristjánssyni því um vorið varð hann Íslandsmeistari í handbolta! Ótrúlegt, en satt.
  • Segja má að markið í Keflavík hafi Jón gert eftir hraðaupphlaup eins og handboltamanna er siður; KA sneri vörn í sókn, Gauti Laxdal sendi boltann fram völlinn, Jón tók á rás frá miðju og skoraði framhjá Þorsteini Bjarnasyni .
  • Knattspyrnuferli Jóns lauk með marki og Íslandsmeistaratitli. Hann lagði skóna á hilluna eftir tímabilið og sneri sér alfarið að handbolta.
  • Ellert B. Schram formaður KSÍ var á Kaplakrikavelli í Hafnarfirði með Íslandsbikarinn þegar flautað var til leiks því líklegast var talið að þar færi bikarinn á loft; að FH yrði Íslandsmeistari í fyrsta sinn.
  • Þegar Fylkir tók forystu 10 mín. fyrir leikslok í Hafnarfirði og KA var 1:0 yfir í Keflavík reis Ellert úr sæti sínu í heiðursstúkunni og yfirgaf völlinn. „Hans bíður glæfraleg ökuferð í lögreglufylgd til Keflavíkur með Íslandsbikarinn í farangursrýminu,“ skrifaði Víðir Sigurðsson, þá íþróttafréttamaður DV, í skemmtilegri frásögn af gangi máli þennan örlagaríka laugardag.

Erlingur Kristjánsson fyrirliði KA með Íslandsbikarinn og Guðjón Þórðarson, þjálfari liðsins, hlaðinn blómum við komuna til Akureyrar eftir sigurinn í Keflavík. Erlingur afrekaði síðar að vera einnig fyrirliði KA þegar félagið varð Íslandsmeistari í handbolta. 

  • Tvennir bræður urðu Íslandsmeistarar með KA. Auk Erlings og Jóns Kristjánssona voru Ormarr og Þorvaldur Örlygssynir í liðinu. Örlygur faðir þeirra Ívarsson sat árum saman í stjórn knattspyrnudeildar KA.
  • Þorvaldur var kjörinn leikmaður ársins 1989 af leikmönnum liðanna í efstu deild Íslandsmótsins. Að mótinu loknu gekk hann til liðs við Nottingham Forest og þar með hófst langur og farsæll ferill hans sem knattspyrnumanns í Englandi.
  • Þorvaldur, sem nú er formaður KSÍ, var í leikbanni og tók því ekki þátt í leiknum í Keflavík og Ormarr fór af velli þegar 17 mín. voru eftir þrátt fyrir að hafa leikið vel og spennan væri í hámarki.
  • Ormarr var á leið til Parísar í vinnuferð og vélin átti að fara í loftið kl. 16.00; um hálftíma eftir að hann fór af velli! Brunað var með Ormarr í lögreglufylgd upp á flugvöll og hann komst utan.
  • Þetta var annað árið í röð sem Ormarr varð Íslandsmeistari. Hann var í meistaraliði Fram sumarið áður.
  • Múgur og margmenni tók á móti Íslandsmeisturunum á Akureyrarflugvelli. Meðal þeirra var Tómas Steingrímsson einn stofnenda KA 8. janúar 1928 og fyrsti formaður félagsins.