Fara í efni
Fréttir

Þórsarar þurfa að spila við Framara á Dalvík

Næsti heimaleikur Þórs í handbolta verður á Dalvík. Þetta kemur fram í færslu sem Árni Rúnar Jóhannesson, formaður handknattleiksdeildar Þórs, skrifaði á Facebook. Ástæðan er sú að árshátíð er í íþróttahöllinni á Akureyri. Árni segir Dalvíkinga hafa tekið frábærlega á móti Þórsurum, en þeir hafa einmitt staðið fyrir mjög vel heppnuðum handboltaæfingum fyrir börn á Dalvík í vetur.

Þórsarar mæta ungmennaliði Fram í Grill 66 deildinni, næst efstu deild Íslandsmótsins, á laugardaginn klukkan 16.00.

Klúður í íþróttahúsi Síðuskóla

„Vandamálum varðandi íþróttaaðstöðu boltaíþrótta innanhúss fjölgar ár frá ári.

Íþróttahúsið í Síðuskóla er lokað vegna þess að framkvæmdir við endurnýjun á gólfi íþróttahússins klúðruðust all rækilega í ágúst og þarf að fara í miklar framkvæmdir til að gera gólfið hæft til íþróttaiðkunar. Þar hefur má segja ekkert verið æft að neinu ráði síðan síðasta vetur,“ skrifar Árni.

„Það þarf varla að útskýra það fyrir einum né neinum hve mikla vinnu aukalega leggst á alla sem að yngri flokkunum koma. Það þarf að koma fyrir fjölda barna annarsstaðar. Þá er spurt annarsstaðar hvar?

Þú kemur þeim hvergi fyrir vegna þess að, það vantar eitt stykki íþróttahús í bæinn. Húsin eru öll þétt setin og varla lausan tíma að finna.“

Árni segir að árshátíðir og ráðstefnur hafi enn einu sinni forgang í íþróttahöll Akureyrar, heimavelli meistaraflokka hand- og körfuknattleiksdeilda Þórs.

„Stofnanir og fyrirtæki geta tekið heila helgi frá fyrir sig, allt uppí 4 daga, löngu áður en sérsamböndin gefa út leikjaniðurröðun vetrarins. Svo er bara sagt fyrstur kemur fyrstur fær

En þessa helgi átti eða á líka að vera körfuboltaleikur sem verður á föstudegi og 6.flokks mót í handbolta þar sem fleiri hundruð þátttakenda mæta

En höllin er upptekin vegna árshátíðar!!“ skrifar Árni.

Vantar eitt íþróttahús í bæinn

„Árshátíðir eru nauðsynlegar og frábærar. Hver elskar ekki árshátíð. Höllin er frábær staður fyrir slíkan viðburð. En á meðan það vantar eitt stykki íþróttahús í bæinn þá verða íþróttir og tómstundir að gjalda fyrir slíka viðburði hvað sem tautar og raular. Það er ekki verið að handa okkur út á gaddinn, heldur 44km norður til Dalvíkur

Viðmót Dalvíkinga gagnvart okkur í þessu máli hefur verið frábært, þeir hafa fært, breytt og bætt við, eftir okkar þörfum vegna þessa leiks.

Það er ekkert lítið verkefni að færa einn leik í annað bæjarfélag og núna er þessi vika undirlögð hjá sjálfboðaliðum Þórs að koma þessu á koppinn.

En þetta dregur á eftir sér slóð annara mála sem þarfnast úrlausna, 6. flokks mótið er á sama tíma og leikurinn og margir af okkar leikmönnum hefðu átt að vera dæma á því móti eða vinna við það. Núna þarf að leysa það einhvernveginn.

Aðstöðuleysið er ekki neinum um að kenna, það er morgunljóst, EN það margra að leysa og sú vinna verður að vinnast hratt á næstu mánuðum.

En við hvetjum alla Þórsara að gera sér dagamun og rúlla út á Dalvík og öskra okkar menn áfram, einnig er hér frábært tækifæri fyrir þá krakka sem hafa verið að æfa með okkur handbolta á Dalvik að koma og horfa og læra...

Áfram Þór, áfram handboltinn.“