Fara í efni
Fréttir

Samið um íþróttahús Þórs – í notkun 2031?

Reiknað er með íþróttahúsið verði á svæðinu þar sem þarna er merkt með rauðu og muni tengjast bæði félagsheimilinu Hamri og áhorfendastúkunni við Þórsvöllinn.

Reiknað er með að á næstu vikum verði gengið verði frá samningi um byggingu íþróttahúss á félagssvæði Þórs í Glerárhverfi. Eftir því sem akureyri.net kemst næst er stefnt að því að húsið verði tilbúið til notkunar eftir um það bil fimm ár.

  • Á fundi fræðslu- og lýðheilsuráðs um miðjan janúar var lagt fram minnisblað varðandi fyrirhugaða uppbyggingu íþróttahúss og félagsaðstöðu á félagssvæði Þórs, þar var góðri undirbúningsvinnu fagnað og málinu vísað áfram til bæjarráðs.
  • Bæjarráð fól í síðustu viku sviðsstjóra skipulagssviðs að vinna að undirbúningi að breytingu á deiliskipulagi svæðisins.
  • Bæjarráð fól einnig Ellert Erni Erlingssyni forstöðumanni íþróttamála og Guðríði Friðriksdóttur sviðsstjóra umhverfis- og mannvirkjasviðs falið að vinna að samkomulagi um uppbyggingu á félagssvæði Þórs í samræmi við minnisblaðið og leggja drög að samkomulagi þess efnis fyrir bæjarráð í lok febrúar.

Þórsarar hafa lengi barist fyrir því að íþróttahús verði reist á félagssvæðinu. Starfsemi deilda félagsins fer fram víða um bæinn og skv. upplýsingum frá Þór geta um 45% af iðkendum félagsins á aldrinum 5-19 ára ekki sótt æfingar Þórssvæðinu heldur fara æfingar þeirra og keppni fram í Íþróttahöllinni, íþróttahúsi Síðuskóla, íþróttahúsi Glerárskóla, íþróttahúsinu við Laugargötu og íþróttahúsi Oddeyrarskóla.  

Nákvæm staðsetning íþróttahúss Þórs liggur ekki fyrir en gert er ráð fyrir því á milli félagsheimilisins Hamars og áhorfendastúkunnar eins og sjá má á myndinni hér að ofan.