Fara í efni
Fréttir

KA/Þór tapaði naumlega fyrir Fram

Trude Blestrud Hakonsen, til vinstri, gerði 7 mörk fyrir KA/Þór í dag og Susanne Denise Pettersen 3 mörk. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Framstúlkur komu í heimsókn í KA-heimilið í dag og fóru suður yfir heiðar með bæði stigin eftir nauman 21:20 sigur á KA/Þór í efstu deild kvenna í handknattleik, Olísdeildinni, í dag. Heimastúlkur sitja áfram í 6. sæti deildarinnar eftir tapið.

KA/Þór byrjaði samt betur og var með yfirhöndina lengst af í fyrri hálfleik. Þegar um þrjár mínútur voru til leikhlés var staðan 9:7 KA/Þór í vil en Fram skoraði þrjú síðustu mörk hálfleiksins og leiddi 10:9 í hléi.

Seinni hálfleikurinn var hnífjafn og Framarar héngu á 1-2 marka forskoti og það var ekki fyrr en um 8 mínútur voru eftir að munurinn fór í 3 mörk. Nokkrum mínútum síðar var hann kominn í 4 mörk, 21:17, en KA/Þór gerði þrjú síðustu mörk leiksins. Fram hefði getað gert endanlega út um leikinn þegar 10 sekúndur voru eftir en Bernadett Leiner varði þá vítakast. Tíminn var hins vegar of naumur til að heimaliðið næði að jafna leikinn.

Mateja Lonac var fjarri góðu gamni í dag vegna höfuðhöggs sem hún hlaut í síðasta leik en Bernadett stóð fyrir sínu í markinu og varði 10 skot, þar af 2 vítaköst. Trude Blestrud Hakonsen var langmarkahæst með 7 mörk og Susanne Denise Pettersen var klettur í vörninni.

Næsti leikur hjá KA/Þór er gegn Stjörnunni í KA-heimilinu næstkomandi fimmtudagskvöld en fyrri leikur liðanna endaði með jafntefli.

Mörk KA/Þórs: Trude Blestrud Hakonsen 7, Susanne Denise Pettersen 3, Tinna Valgerður Gísladóttir 3 (1 víti), Anna Þyrí Halldórsdóttir 3, Lydía Gunnþórsdóttir 2 (1 víti), Sólveig Lára Kristjánsdóttir 1, Unnur Ómarsdóttir 1.

Varin skot: Bernadett Leiner 10 (2 víti), Selma Sigurðardóttir 0.

Mörk Fram: Hulda Dagsdóttir 6 (5 víti), Katrín Anna Ásmundsdóttir 4, Ásdís Guðmundsdóttir 3, Harpa María Friðgeirsdóttir 3, Dagmar Guðrún Pálsdóttir 2, Alfa Brá Oddsdóttir Hagalín 2, Sunna Jónsdóttir 1.

Varin skot: Arna Sif Jónsdóttir 8 (1 víti), Ethel Gyða Bjarnasen 4.

Staðan í Olísdeild kvenna

Öll tölfræði leiksins hjá HBStatz