Fara í efni
Fréttir

Sex geimfarar á ferð um sporbaug jarðar

AF BÓKUM – 48

Starfsfólk Amtsbókasafnsins á Akureyri segir lesendum Akureyri.net alla þriðjudaga frá bók eða bókum. Uppátækið vekur vonandi athygli á bókakosti safnsins, þar sem af nógu er að taka, og glæðir áhuga sem flestra á bóklestri.
 

Í dag skrifar Aija Burdikova_ _ _

Sporbaugar – Orbital, eftir Samantha Harvey

Undanfarna mánuði hef ég reynt annað slagið að lesa bækur sem eru fyrir utan þægindaramman minn í lestri. Nýlega prófaði ég að lesa eina Manga-sögu (japanskar teiknimyndasögur sem maður les frá hægri til vinstri) sem var áskorun en var samt mjög skemmtilegt. Svo las ég Eyland eftir Sigríði Hagalin sem hún Hrönn okkar var búin að mæla með sem var alls ekki minn tebolli en ég er ánægð með að hafa lesið hana því hún var mjög áhrifarík. Svo ákvað ég að lesa nútímaskáldsögu sem fjallar um líf sex geimfara – bók sem ég myndi alls ekki velja vanalega en þar sem hún er mjög stutt og hlaut Booker-bókmenntaverðlaunin í fyrra varð hún fyrir valinu.

Geimfararnir eru á ferð um sporbaug jarðar og upplifa sextán sólarupprásir og sólsetur á tuttugu og fjórum klukkutímum. Í sögunni kynnumst við einstaklingunum sex sem eru frá Rússlandi, Ítalíu, Bandaríkjunum, Bretlandi og Japan. Við fylgjumst með hvernig dagleg líf og starf gengur fyrir sig um borð í geimfarinu. Við kynnumst fjölskyldum og vinum geimfaranna sem eru á jörðu niðri.

Hvernig er að upplifa sorg í geimnum? Hvernig eru samskipti maka þegar annar aðilinn er einhvers staðar út í geimi mestmegnis af árinu?

Hvernig er að upplifa yfirvofandi náttúruhamfarir sem þau geta ekkert gert í, að sjá risafellibyl með eigin augum ofan frá? Hafa tvö klósett þar sem annað er fyrir Rússa en hitt fyrir alla hina?

„Vegna yfirstandandi pólitískra deilna gjörið svo vel að nota þjóðarsalerni ykkar.“

Við kynnumst daglegu lífi í geimnum sem allt er skipulagt mínútu fyrir mínútu, hvað verður í matinn dag eftir dag.

„Vitið þið hverju ég hlakka til að snúa mér að aftur þegar sá tími kemur? segir hann. Hlutum sem ég þarf ekki, einmitt þeim. Tilgangsleysi.“

Mesti styrkleiki bókarinnar að mínu mati er tungumálið sem var einstaklega fallegt og litríkt. Ég las bókina á ensku en hún er bæði til á Amtsbókasafninu og sem hljóðbók á Rafbókasafninu (það er hálfs árs bið eftir hljóðbókinni). Þegar ég var búin með bókina kom í ljós að hún var komin út í íslenskri þýðingu. Ég mæli mikið með þessari fallegu sögu.