Fara í efni
Fréttir

Samstarf Kríu og Driftar EA um að efla nýsköpun

Hrönn Greipsdóttir, forstjóri Nýsköpunarsjóðsins Kríu og Sesselja Barðdal Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Driftar EA handsala samninginn.

Nýsköpunarsjóðurinn Kría og Drift EA hafa gert með sér samstarfssamning til eflingar frumkvöðlastarfs og nýsköpunar á Íslandi. „Með þessu samstarfi styður Nýsköpunarsjóðurinn Kría við starfsemi Driftar EA og tekur virkan þátt í að styrkja umgjörð nýsköpunar og vaxtarmöguleika sprotafyrirtækja á landsvísu. Eins mun Drift EA hafa aðgengi að aðstöðu hjá Kríu þegar þau heimsækja höfuðborgarsvæðið,“ segir í sameiginlegri tilkynningu.
 
„Drift EA er kraftmikil miðstöð frumkvöðla og nýsköpunar, þar sem samfélag og aðstaða skapa frjósaman jarðveg fyrir hugmyndir til að þroskast og vaxa,“ segir í tilkynningunni. Þar er nefnt að með stuðningi Kríu styrkist umgjörðin enn frekar og tengsl við sprota- og fjárfestasamfélagið á Íslandi verði efld. 
 
„Kría leggur áherslu á að styðja þar sem markaðsbrestur er mestur og þar sem opinber stuðningur getur haft mest áhrif. Sjóðurinn fjárfestir beint í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum, veitir breytanleg lán og tekur þátt í fjárfestingasjóðum, með það að markmiði að brúa bilið milli frumskóga nýsköpunar og markaðarfjárfestinga.“
 
Mikill akkur í samstarfinu
 
„Það er mikill akkur að fá Nýsköpunarsjóðinn Kríu til liðs við Drift EA í þessu mikilvæga samstarfi. Með sameiginlegu átaki styrkjum við umgjörðina sem frumkvöðlar og sprotafyrirtæki á Norðurlandi geta byggt á og eflum tengslin við fjárfesta og nýsköpunarsamfélagið á landsvísu,“ segir Sesselja Barðdal Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Driftar EA, í tilkynningunni. „Nýsköpun á Norðurlandi hefur mikið fram að færa og á fullt erindi á stóra sviðið. Við erum sannfærð um að þessi samvinna muni skapa ný tækifæri fyrir hugmyndir og verkefni á starfssvæði Driftar til að vaxa og dafna.“
 
Hrönn Greipsdóttir, forstjóri Nýsköpunarsjóðsins Kríu, fagnar einnig samstarfinu. „Það er okkur mikilvægt að ná til landsbyggðanna og með því að ganga til liðs við bakhjarla Drift vonumst við til að tengsl okkar við Norðurland eflist enn frekar. Nýsköpun á sér ekkert síður stað úti á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu og því er okkur mikilvægt að ná til frumkvöðla sem eru að leita eftir því að koma sinni vöru eða þjónustu á framfæri við fjárfesta og tengingin við Drift eflir sjóðinn í þeirri vegferð,“ segir Hrönn.