Fara í efni
Fréttir

Plastlundar lokkuðu til varps í Hrísey

Plastlundarnir settir upp til að tæla lifandi fyrirmyndir sínar í Hrísey. Myndir: Aðalsteinn Hjelm

Nýjasti landneminn á perlu Eyjafjarðar, Hrísey, er ekki af verri endanum. Nú hefur draumur margra ræst, þegar lundinn er byrjaður að verpa í eyjunni og gera sig heimankominn. Það er þó ekki af engu komið, en það hefur verið unnið ötullega að því að fá lunda í eyjuna síðan árið 2019. Árni Eyfjörð Halldórsson er einn eigenda hvalaskoðunarfyrirtækisins Whales á Hauganesi og einn af þeim sem hafa unnið að þessu takmarki.

„2019 fórum við í það verkefni, að setja upp tálfugla, en ég fékk uppstoppaðan lunda sem við sendum til Kína og létum framleiða 100 stykki af plastlundum að fyrirmynd hans,“ segir Árni við blaðamann Akureyri.net. „Við komumst reyndar bara að því eftir á, að þessi leið hafi verið reynd annarsstaðar, en þegar við fengum hugmyndina þá vissum við ekki af því.“

Sumir ferðamenn hafa sagt við okkur, að þeim sé alveg sama þó þeir sjái engan hval, bara ef þeir sjá lunda

Tilraunin til þess að fá lunda í Hrísey samanstóð af því að stilla upp þessum plastlundum, en einnig að ala upp pysjur og sleppa í eyjunni. „Við fengum pysjurnar í Grímsey, en ég veit í rauninni ekki hvort það hafði eitthvað að segja,“ segir Árni. „En nú er mikil gleði hjá okkur, þar sem við komumst að því nýlega, að lundinn er farinn að verpa. Það gæti hafa verið byrjað í fyrra, en við urðum þá ekki vör við það.“

„Okkur fannst reyndar alltaf skrítið að lundinn skyldi ekki verpa í Hrísey, þegar við byrjuðum þessa vinnu,“ segir Árni. „Hann verpir í nánast öllum eyjum hérna austan og vestan við okkur. Hann vonandi kann bara vel við sig fyrst hann er loksins kominn, við sjáum til hvernig þetta þróast.“

 

Plastlundarnir eru frekar krúttlegir. Þeir eru þessar þöglu, sterku týpur. Myndir: aðsendar

Óvenju mikið af lunda á Norðurlandi í sumar

„Þetta mun breyta töluverðu fyrir okkur, að geta boðið upp á hvala- og lundaskoðun fyrir gestina okkar,“ segir Árni. „Við höfum verið að sjá lunda, og reyndar óvenju mikið í sumar, úti á sjó. Viku eftir viku hefur verið lundi í tugþúsundatali í firðinum, alveg inn að Svalbarðseyri.“

„Sumir ferðamenn hafa sagt við okkur, að þeim sé alveg sama þó þeir sjái engan hval, bara ef þeir sjá lunda,“ segir Árni, aðspurður um hvort að vinsældir hvalanna séu í hættu þegar fiðraði ferðamannasegullinn er mættur. „Lundinn hefur ægilegt aðdráttarafl, en hann er bara í plús. Hvalirnir standa alltaf fyrir sínu líka.“

Lundinn í hættu á válista Náttúruverndarstofnunar

Nýlega birti Náttúruverndarstofnun nýjan válista fuglategunda á Íslandi, en þar var lundinn einn af fjórum tegundum sem telst í mikilli hættu. „Mér þætti bara áhugavert að heyra hvernig staðan er hérna fyrir norðan, okkar upplifun er sú að við höfum aldrei séð jafn mikið af lunda,“ segir Árni. „Hvort sem það er í Grímsey, í Skagafirðinum, Flatey eða hvar, finnst okkur vera aukning.“

„Við héldum alveg upp á þetta,“ segir Árni, aðspurður um hvernig viðbrögðin hefðu verið þegar varpið var staðfest. „Þetta voru geggjaðar fréttir, að lundinn væri kominn til að vera.“ 

Mikið hefur verið um hval í Eyjafirði í sumar, til dæmis hnúfubak. Nýlega sást til móður með kálf sem þykir afar sjaldgæft en Þorgeir Baldursson náði þeim saman á mynd eins og hér má sjá.

Fleiri ferðamenn og fleiri hvalir

„Hvalaskoðunin hefur gengið ótrúlega vel í sumar, það hefur verið góð tíð og mikið af hval,“ segir Árni um sumartraffíkina hingað til, en hann finnur fyrir aukningu í aðsókn. „Það er mikil fjölbreytni í því hvaða tegundir við erum að sjá frá degi til dags, og í dag vorum við til dæmis að sjá fimm mismunandi tegundir! Það er ansi gott. Það sást hópur af andanefjum, hnúfubakar, hrefnur, höfrungar og hnísur.“

„Það er reyndar áhyggjuefni, þetta aukagjald á skemmtiferðarskipin,“ segir Árni að lokum. „Mér skilst að skipafyrirtækið sem sendir mest af fólki til okkar sé jafnvel ekki að koma á næsta ári, ef af þessum skatti verður. Hvert skip sem kemur er að skilja eftir gríðarlega fjármuni, sem munar aldeilis um.“