Fréttir
Ótækt að breyta aðferð við val á listann
30.01.2026 kl. 15:00
Heimir Örn Árnason - Berglind Ósk Guðmundsdóttir - Þórhallur Jónsson.
Stjórn fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna á Akureyri telur ótækt að breyta aðferð við val á lista Sjálfstæðisflokksins fyrir bæjarstjórnarkosningarnar í vor. Þetta kemur fram í yfirlýsingu fulltrúaráðs í kjölfar þess að Þórhallur Jónsson varabæjarfulltrúi ákvað að kæra til miðstjórnar flokksins hvernig staðið er að málum við val á listann og krefjast þess að haldið verði prófkjör.
Stjórn fulltrúaráðs telur að ákvörðun um að leggja til röðun hafi á sínum tíma verið tekin með hagsmuni flokksins að leiðarljósi. „Hún byggði meðal annars á því að vera skynsamleg með tilliti til þess að fyrirkomulagið gefi þeim sem hyggjast gefa kost á sér áfram tækifæri til að endurnýja umboð sitt sem og að gefa nýjum aðilum tækifæri til að bjóða sig fram. Tillagan var ekki lögð fram með einstaka frambjóðendur í huga,“ segir í yfirlýsingunni.
- Frétt akureyri.net í gær: Þórhallur kærir, krefst prófkjörs og vill 1. sæti
Samþykkt var í haust að raðað yrði í fjögur efstu sæti listans. Heimir Örn Árnason, oddviti flokksins gaf áfram kost á sér í efsta sæti og síðar Berglind Ósk Guðmundsdóttir, sem nýlega hætti sem formaður stjórnar fulltrúaráðsins. Á dögunum ákvað Heimir að sækjast eftir 2. sæti frekar en því efsta og þau Berglind lýstu yfir stuðningi hvort við annað.
Yfirlýsing stjórnar fulltrúaráðsins er svohljóðandi:
Stjórn fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna á Akureyri hefur borist erindi sem fjallað hefur verið um í fjölmiðlum og vill því koma eftirfarandi á framfæri:
Það er álit stjórnar fulltrúaráðs að ótækt sé að breyta aðferð við val á lista flokksins fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar.
Undirbúningur röðunar er í fullum gangi, frambjóðendur hafa stigið fram og tekið ákvarðanir út frá þeim reglum og því ferli sem var samþykkt á fulltrúaráðsfundi 2. desember sl.
Stjórn fulltrúaráðs telur að ákvörðun um að leggja til röðun hafi á sínum tíma verið tekin með hagsmuni flokksins að leiðarljósi. Hún byggði meðal annars á því að vera skynsamleg með tilliti til þess að fyrirkomulagið gefi þeim sem hyggjast gefa kost á sér áfram tækifæri til að endurnýja umboð sitt sem og að gefa nýjum aðilum tækifæri til að bjóða sig fram. Tillagan var ekki lögð fram með einstaka frambjóðendur í huga.
Tillaga stjórnar var borin upp á félagsfundi sem var löglega boðaður og var samþykkt með meira en 2/3 greiddra atkvæða.
Eftir að hafa rýnt ferlið ítarlega, aðdraganda ákvörðunar fulltrúaráðs og allt fram til dagsins í dag telur stjórn fulltrúaráðs að ekki hafi verið brotið með neinum hætti á rétti einstakra frambjóðenda. Lögð hafi verið áhersla á vönduð vinnubrögð og farið í einu og öllu eftir skipulagsreglum flokksins.
Forsendur um aðferð við val á lista hafa ekki breyst með þeim hætti að lögmæt sjónarmið kalli á aðra aðferð, bæði með tilliti til sanngirnissjónarmiða gagnvart frambjóðendum og tímaramma fram að kosningum.
Af framangreindum ástæðum stendur ákvörðun fulltrúaráðs um að viðhafa röðun við val í fjögur efstu sæti listans þar sem um 200 manns hafa atkvæðisrétt. Stjórn fulltrúaráðs er ákaflega stolt af því að Sjálfstæðisflokkurinn sé eina framboðið fyrir komandi kosningar á Akureyri sem býður jafn mörgum flokksmönnum að taka þátt í að velja forystufólk á framboðslista. Stjórnin bendir áhugasömum einstaklingum á að enn er hægt að gefa kost á sér í röðun, en framboðsfrestur rennur út föstudaginn 6. febrúar nk.
Sveitarstjórnarkosningar fara fram 16. maí.